148. löggjafarþing — 31. fundur,  28. feb. 2018.

störf þingsins.

[15:27]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V):

Virðulegur forseti. Mig langar að nota þetta tækifæri til að auglýsa eftir efnahagsstefnu þessarar ríkisstjórnar. Hún er vel falin í það minnsta, sé hana einhvers staðar að finna. Ég held reyndar að hún sé ekki til. Við höfum setið að störfum í fjárlaganefnd til þess að fara yfir þingsályktunartillögu til fjármálastefnu þar sem hver hagsmunaaðilinn á fætur öðrum kemur á fund okkar og varar við þeirri vá sem hér sé fram undan; hagkerfið sé að kólna mun hraðar en okkur hafi órað fyrir. Forsendur fjármálastefnunnar standist engan veginn. Sú þjóðhagsspá sem unnið sé út frá standist ekki. Þær tekjuforsendur sem unnið sé út frá standist ekki. Enn er samt bætt í í útgjöldum og nú síðast var útspil þessarar ríkisstjórnar til þess að hnýta hér saman kjarasamninga að auka enn frekar í útgjaldaaukningu.

Það er vel að tekist hafi að tryggja framlengingu kjarasamninga næstu tíu mánuðina, en ég hef meiri áhyggjur af undirstöðum þessa hagvaxtar, undirstöðum efnahagslífsins sem við stöndum hér á.

Hvar er stefna ríkisstjórnarinnar þegar kemur að því?

Það kemur mjög skýrt fram í umsögnum Samtaka atvinnulífsins, Viðskiptaráðs og Samtaka iðnaðarins að útflutningsgreinarnar okkar eru að kafna undan núverandi stöðu gengis. Samkeppnisstaða þeirra er að engu orðin. Við reisum ekki efnahagslíf okkar lengur á vaxandi útflutningstekjum. Þetta er að verða ansi innstæðulaus áætlun hjá ríkisstjórninni.

Mér þætti vænt um að vita hvernig ríkisstjórnin ætlar, samhliða því sem hún eykur enn í kostnað atvinnulífsins, eykur enn í þann kostnað í atvinnuleysistryggingum sem tryggingagjaldinu er ætlað að standa undir, að standa við fyrirheit sín um að lækka tryggingagjald. Sárt er kvartað undan því að þar sé innstæða til verulegrar lækkunar, eða réttara sagt skuld (Forseti hringir.) ríkisstjórnar við atvinnulífið. Fyrirheit hafa verið gefin, en það verður erfitt að sjá (Forseti hringir.) hvernig hægt verður að standa við þau.