148. löggjafarþing — 31. fundur,  28. feb. 2018.

mótun eigendastefnu ríkisins fyrir bújarðir.

[15:37]
Horfa

Þórunn Egilsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því að þakka hæstv. fjármálaráðherra fyrir að taka þátt í þessari umræðu sem hverfist um eigendastefnu, eða stefnuleysi, um bújarðir í eigu ríkisins. Þrisvar hefur sú sem hér stendur lagt fram þingsályktunartillögu varðandi málið. Tvisvar náð að mæla fyrir málinu en aldrei hefur það náð afgreiðslu. Taka má fram að umsagnir sem bárust við þessar framlagningartilraunir voru ýmist á þann veg að umsagnaraðilar tóku undir markmið tillögunnar og mæltu með framgangi hennar eða gerðu ekki athugasemdir við efni hennar. Auk þess hefur fjárlaganefnd ítrekað hnykkt á mikilvægi málsins í greinargerðum sínum.

Enn vil ég því vekja athygli á þessu mikilvæga máli sem snertir fjölskyldur og samfélög víða um land og skiptir miklu máli. Þar sem forræði ríkisjarða er á hendi fjármála- og efnahagsráðuneytisins, samanber jarðalög nr. 81/2004, er eðlilegt að beina fyrirspurn til viðkomandi ráðherra. En aftur má velta fyrir sér hvort ekki væri eðlilegt að landbúnaðarráðherra ætti aðkomu að málum.

Jarðalögin kveða á um kaup, sölu og aðra ráðstöfun ríkisjarða. Þau ná aftur á móti ekki yfir opinbera stefnu um eigendastefnu ríkisins. Rifja má upp að árið 2013 skipaði umhverfis- og auðlindaráðherra starfshóp um landnotkun í dreifbýli og sjálfbæra landnýtingu. Í lokaskýrslu starfshópsins frá ágúst 2015 kemur fram að mikilvægt sé að móta eigendastefnu fyrir landeignir í eigu ríkisins, hvernig beri að nýta þær og ráðstafa þeim, þar með talið hvort og hvaða jarðir skuli vegna sérstöðu sinnar vera í eigu ríkisins, hverjar megi selja og hverjar leigja, og þá eftir atvikum með hvaða kvöðum.

Því vil ég spyrja hæstv. ráðherra: Liggur fyrir áætlun um sölu eða útleigu bújarða? Hver er staðan í vinnu við nákvæma skráningu jarða á forræði ríkisins? Og hvenær er áætlað að henni ljúki?

Margar jarðir í eigu ríkisins hafa mikla sérstöðu með tilliti til náttúru, sögu og menningar en flestar bújarðir og jarðarhlutar eru í umsjón stofnana ríkisins eða ábúenda sem hafa þær til afnota gegn leigugjaldi. Mikilvægt er að ríkið marki sér stefnu því í gegnum árin hefur víða komið upp sú staða að fólk sem hefur viljað setjast að á jörðum, hefja búskap og setja sig niður hefur ekki fengið það því vinnu- og verkferla virðist vanta, auk þess sem ráðstöfun jarða getur verið snúin ef nýtingaráætlanir eru ekki til staðar og verkfæri til úttektar bág.

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að tiltaka einstaka dæmi sem upp hafa komið en vitað er að mikið er í húfi fyrir sveitarfélög sem byggja afkomu sína að stórum hluta á landbúnaði og ferðaþjónustu. Fari jarðir úr ábúð og ekki er samfella í búskap kostar það mikið. Túnin fara úr rækt og menn þurfa að koma sér upp nýjum bústofni. Það gilda nefnilega ekki sömu aðferðir við sölu á húseignum og jörðum sem eru í ábúð og standa undir búskap. Sú staðreynd að ríkissjóður á um 400 jarðir eða rúmlega það sem flestar eru nýttar til landbúnaðar felur í sér mikil tækifæri til að styrkja byggðir og styðja við íslenskan landbúnað sem býr yfir mikilli þekkingu og verðmætum sem felast m.a. í heilbrigðum bústofni og þekkingu bænda á landinu.

Sú þróun að sífellt fleiri jarðir fara úr ábúð veikir hinar dreifðu byggðir sem eru mikilvægar út frá byggðasjónarmiðum og tryggja matvælaframleiðslu og jafnrétti til búsetu. Ríkið getur haft veruleg áhrif á þetta allt saman en skilgreina þarf hvers konar land skuli vera í eigu ríkisins og þar með hvaða landsvæði teljist heppilegra að sé í eigu einkaaðila.

Nú þegar sérstaklega er þörf á aðgerðum í loftslagsmálum finnst mér liggja beinast við að ríkið gangi fram og uppfylli samninga við bændur sem nú þegar eru til staðar varðandi skógrækt. Þannig reiknast mér til að ná megi loftslagsmarkmiðum ríkisstjórnarinnar, styrkja byggð, styðja við atvinnuuppbyggingu og styrkja ferðaþjónustu, fegra og bæta landið og margt fleira.

Eitthvað virðist lítið hafa verið gert til að selja og setja jarðir í ábúð og auglýsa þær. Líklega vantar reglur um það hvar og hvernig á að auglýsa. Góðar jarðir hafa einfaldlega verið látnar drabbast niður vegna aðgerðaleysis af hálfu ríkisins. Þessu þarf að breyta.

Ég vil því að lokum spyrja hæstv. ráðherra: Hvenær geta þeir aðilar sem segja má að hafi verið fastir í kerfinu búist við svörum frá ráðuneytinu?