148. löggjafarþing — 31. fundur,  28. feb. 2018.

mótun eigendastefnu ríkisins fyrir bújarðir.

[15:42]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir frumkvæði hv. 4. þm. Norðaust., Þórunnar Egilsdóttur, að þessari umræðu. Við stöndum frammi fyrir talsverðum áskorunum í landbúnaði og almennt í landbúnaðarmálum. Þær eru af ýmsum toga, tengjast framleiðslunni, byggðaþróun, þær tengjast líka fjárhagslegum þáttum sem við horfðum fram á núna á eftirhrunsárunum. Þær tengjast líka alþjóðlegum samningum og fleiru sem við höfum verið að ræða á undanförnum árum. Og enn er verið að ræða um nýlega búvörusamninga, vanda sauðfjárbænda. Vandinn er af ýmsu tagi.

Þetta leiðir fram mikilvægi þess að tekið sé á þessum málaflokki með heildstæðum hætti til að tryggja byggð og búsetu um allt land og matvælaframleiðslu, eins og hv. þingmaður kom inn á.

Mig langar jafnframt til að nefna að í stjórnarsáttmála nýrrar ríkisstjórnar kemur fram að ríkisstjórnin hyggst kanna leiðir til að setja skilyrði við kaupum á landi sem taka mið af stefnu stjórnvalda um þróun byggða, landnýtingu og umgengni við auðlindir. En það er dálítið annað mál.

Hagfræðistofnun Háskóla Íslands hefur unnið úttekt á ábúðarjörðum í eigu ríkisins þar sem lagt var mat á kosti og galla þess að setja ríkisjarðir í ábúð. Ráðuneytið hefur jafnframt unnið að gerð eigendastefnu um land og auðlindir í eigu ríkisins sem tekur m.a. til ábúðar jarða í eigu ríkisins. Í október í fyrra birti fjármálaráðuneytið drög að meginþáttum nýrrar eigendastefnu sem auk annarra þátta byggði á úttekt Hagfræðistofnunar. Nú stendur yfir vinna við að yfirfara þær athugasemdir sem bárust og betrumbæta þau drög sem birt voru.

Ég sé fyrir mér að hér gæti verið skynsamlegt að koma saman ráðgjafarhópi í fjármálaráðuneytinu sem mun koma til ráðgjafar um endanlegar tillögur. Inn í þann hóp mætti kalla til fulltrúa sveitarfélaga, ráðuneyti sveitarstjórnarmála og landbúnaðar, og jafnvel fulltrúa Bændasamtakanna. Þetta er vinna sem brýnt er að ljúki sem fyrst.

Það er ekki tími til að fara yfir allt sem segir í skýrslu Hagfræðistofnunar en þar er m.a. komið inn á að heildarleigutekjur ríkisins af ábúðarjörðum séu litlar og standi ekki undir ávöxtun ríkisins af þessum eignum né nauðsynlegum rekstrarkostnaði kerfisins og að ábúðarkerfið hafi í raun verið fjármagnað með sölu ríkisjarða. Um það má svo sem segja að það sé ekki sjálfbær leið til lengri tíma. En þetta er bara eitt sjónarhorn á málið, að spyrja hvernig ábúðarkerfið hafi komið út í þessu ríkisfjármálalega tilliti. Það eru svo margir aðrir þættir, þar með taldir byggðatengdir þættir og matvælaöryggissjónarmið sem þarf að taka með í myndina.

Hér er spurt sérstaklega hvort fyrir liggi áætlun um sölu eða útleigu ríkisjarða. Ég ætla að byrja á að segja að ég tek undir með hv. þingmanni. Stjórnkerfið hefur ekki verið að standa sig í að veita svör þegar spurt er hvort jarðir séu lausar til ábúðar eða til standi að koma þeim í sölu, leigu eða með hvaða hætti standi til að ráðstafa þeim. Ég vil gera sérstakt átak í því að koma þeim hlutum í lag.

Ríkissjóður er stærsti einstaki landeigandi jarða á Íslandi. Forsendur fyrir eignarhaldinu geta verið mjög ólíkar auk þess sem rök fyrir eignarhaldinu geta breyst yfir tíma. Einmitt á þessum atriðum er ætlað að taka í nýrri eigendastefnu.

Ég get sagt hér varðandi þær jarðir sem eru í ríkiseigu að engin heildstæð áætlun liggur fyrir um sölu þeirra né útleigu. Við þurfum að flokka allar þessar jarðir og spyrja okkur hvernig þeim verði best ráðstafað í þágu þeirra markmiða sem við sækjumst eftir. Þetta ætti allt að leysast með nýrri eigendastefnu.

Varðandi vinnu við skráninguna er það eitt af áhersluverkefnum ríkiseigna að ljúka henni, sem sagt skráningu allra eigna, réttinda og auðlinda í miðlægan korta- og landupplýsingagrunn sem er grundvöllur markvissrar stefnu á þessu sviði. Sú vinna er komin vel á veg, m.a. með nýjum korta- og landupplýsingagrunni þar sem búið er að afmarka staðsetningu ríkisjarða og í mörgum tilfellum með landamerkjum. Reiknað er með að þeirri vinnu ljúki á komandi mánuðum.

Varðandi þá sem hafa beðið, verið fastir í kerfinu, eins og málshefjandi nefndi áðan, (Forseti hringir.) er þessi vinna aðeins mislangt komin eftir einstökum landsvæðum. Unnið hefur verið að lausn en ég vonast til þess að hún geti fallið vel að heildstæðri sýn sem nú er unnið að, eins og ég hef vikið að, og vonast til þess að við getum innan tiltölulega skamms tíma brugðist við því sem er þegar komið fram í kerfinu.