148. löggjafarþing — 31. fundur,  28. feb. 2018.

mótun eigendastefnu ríkisins fyrir bújarðir.

[15:52]
Horfa

Una Hildardóttir (Vg):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Þórunni Egilsdóttur fyrir að óska eftir þessari þörfu umræðu hér í þingsal og sömuleiðis hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra fyrir að vera hér til svara.

Það er augljóst að Ísland mun fara fram úr heimildum sínum til losunar á gróðurhúsalofttegundum samkvæmt Kyoto-bókuninni. Ísland mun þurfa að kaupa sérstakar losunarheimildir og er það óraunhæft að við náum að standa við alþjóðlegar skuldbindingar okkar um kolefnislosun árið 2020. Ísland er einnig skuldbundið samkvæmt Parísarsáttmálanum og til þess að ná markmiðum samningsins verðum við að byrja strax að binda meira kolefni en við losum. Þótt einhver hluti ávinningsins af landgræðslu og skógrækt muni ekki telja gagnvart skuldbindingum Íslands innan sáttmálans er aukin kolefnisbinding í jarðvegi og gróðri engu að síður mikilvægur þáttur í baráttunni gegn loftslagsbreytingum.

Losun gróðurhúsalofttegunda á Íslandi stafar að langmestum hluta af landnotkun og vistkerfum sem hafa raskast vegna landnotkunar. Þar eru tveir þættir stærstir, land sem hefur misst gróðurþekju og svo framræst votlendi. Við getum snúið þessari þróun við með endurhæfingu hnignaðs og örfoka lands sem og endurheimt framræstra votlenda sem við eigum nóg af. Jafnframt þarf að vakta þessi svæði vel og sjá hvaða árangri þessar aðgerðir skila svo rökstyðja megi að þessar aðgerðir telji að fullu í sáttmálanum þegar kemur að endurskoðun hans árið 2020.

Þótt framræsing votlenda hafi valdið gjörbyltingu í íslenskum landbúnaði á síðustu öld er staðreyndin sú að einungis 13% af hinu framræsta landi eru nýtt til túnræktar og því eru tækifærin mörg þar.

Virðulegi forseti. Baráttan gegn hlýnun jarðar verður ekki háð á einum vígvelli. Vinna stjórnvalda við að minnka kolefnisfótspor Íslands fer ekki bara fram í umhverfisráðuneytinu, Ríkiseignir hafa tækifæri til að nýta þær eyðijarðir sem eru í umsjón þeirra undir kolefnisbindingu og það er mikilvægt að eigendastefna (Forseti hringir.) ríkisins fyrir bújarðir verði unnin með umhverfissjónarmið í huga.