148. löggjafarþing — 31. fundur,  28. feb. 2018.

mótun eigendastefnu ríkisins fyrir bújarðir.

[15:55]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég vil taka undir orð hv. þm. Unu Hildardóttur sem kom hér upp og tók umhverfispunktinn á þetta sem ég sleppi þá bara í bili. Það var send beiðni um þessa sérstöku umræðu og þar var spurning númer tvö kannski einna áhugaverðust, alla vega frá mínum bæjardyrum séð, þar sem það að setja eigendastefnu finnst mér vera sjálfsagt, ég þarf ekki að pæla neitt meira í því. Það er spurt hver staðan sé á vinnu við nákvæma skráningu jarða á forræði ráðuneytisins, og þá ríkisins yfirleitt. Það væri mjög áhugavert að heyra nánari skýringar og svör við þeirri spurningu.

Ríkið er með almenna eigendastefnu. Almenna eigendastefnan frá 2012 tekur einungis til aðila sem falla undir E-hluta ríkisreiknings, þ.e. sameignar- og hlutafélög sem ríkið á að hálfu eða meiri hluta. Í stefnunni kemur líka fram, með leyfi forseta:

„Gert er ráð fyrir því að öll félög sem ríkið hefur aðkomu að sjái sér hag í því að fylgja tilmælum og markmiðum eigandastefnunnar enda stjórn og stjórnendum í hag að aðkoma eiganda að starfsemi félagsins og ábyrgðarskil milli þessara aðila byggi á gagnsæjum og skýrum reglum.“

Reglurnar sem eru raktar hérna eru í tíu liðum og eru mjög almennar og góðar og það er kannski spurning þar sem ekki er tilbúin sérstök eigendastefna fyrir bújarðir hvort það sé a.m.k. verið að reyna að fylgja þeim almennu viðmiðum sem við höfum þó til hliðsjónar.

Ég vil ítreka aftur umhverfisverndarpunktinn sem kom fram hérna áðan.