148. löggjafarþing — 31. fundur,  28. feb. 2018.

mótun eigendastefnu ríkisins fyrir bújarðir.

[15:57]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (Flf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Þórunni Egilsdóttur fyrir að vekja máls á þessu málefni sem er svo nátengt byggðaþróun í landinu. Ég þakka hæstv. fjármálaráðherra fyrir svör hans áðan.

Við ræðum hér um ráðstöfun og eignarhald ríkisjarða, bújarða, sem munu vera um 400 talsins, ef ég heyrði rétt, og hvort ríkið ætli að hafa þessar jarðir áfram í fanginu. Hæstv. fjármálaráðherra hefur enn og aftur rætt um að setja saman ráðgjafarhóp um þetta málefni. Mér heyrðist á máli hæstv. ráðherra að það væru nokkrir slíkir sem starfað hefðu að þessu málefni hingað til. Ég fagna því ef áætlun kemur frá ríkisstjórninni um útleigu eða sölu á eignum ríkisins, sérstaklega bújörðum.

Ég fagna því að þessi stefna líti dagsins ljós.

Margar jarðir hafa mikla sérstöðu ef litið er til náttúrugæða eða náttúrufegurðar. Vanda þarf til sölu ef selja á þær bújarðir sem eru í eigu ríkisins. Ég vil benda á að það er mikilvægt fyrir sveitarfélögin að þessar jarðir séu nýttar og drabbist ekki niður í höndum ríkisins. Ef ákveðið verður að selja ríkisjarðir viljum við að það fari í opið og gegnsætt söluferli. Við viljum vanda til verka í þessum málum.

Það er stefna flokks míns, Flokks fólksins, að halda landinu öllu í byggð, blómlegri byggð, og að ríkisjarðir séu nýttar af eigendum (Forseti hringir.) til landbúnaðarnota.