148. löggjafarþing — 31. fundur,  28. feb. 2018.

mótun eigendastefnu ríkisins fyrir bújarðir.

[16:02]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég fagna þessari umræðu hér því ég hef í tvígang lagt fram fyrirspurnir um málið en svar hefur ekki borist. Í reglum um ráðstöfun ríkisjarða frá 2011 segir að þeim skuli að jafnaði ráðstafað til ábúðar eða útleigu með leigusamningum svo best samræmist markmiðum um búsetu og landbúnað. Þessum reglum hefur ekki verið fylgt síðustu ár.

Ráðstöfun ríkisjarða er margþætt hagsmunamál fyrir nærsamfélagið. Þegar jörð fer í eyði hefur það fjölþætt áhrif og raskar samfélagsgerð þar sem síst skyldi. Það er líka mikið hagsmunamál fyrir einstaklinga sem hætta búskap og hefur oft bein áhrif á afrakstur ævistarfsins að gefast tækifæri til að selja búfé og búnað til þess sem vill taka upp búskap á jörð.

Á sama hátt er það mikið hagsmunamál fyrir þann sem vill hefja búskap á jörð að hafa tækifæri til að kaupa búfé og búnað af þeim sem fyrir var.

En svo eru það almennir hagsmunir sem felast í viðhaldi á verðmætum þeirra eigna sem eru í eigu ríkisins. Sú staða sem hefur verið uppi síðustu ár lýsir miklu virðingar- og skilningsleysi fyrir verðmæti auðlinda á landi, bæði náttúrulegra auðlinda og þeirra sem eru byggðar upp með ræktun á landi og bústofni. Eins og áður sagði felast miklir almennir hagsmunir í ráðstöfun ríkisjarða og þeir geta vissulega falist í öðru en nýtingu ríkisjarða til búskapar.

Ég fagna þess vegna því að það hilli undir stefnu í ráðstöfun ríkisjarða. Hún þolir ekki bið. Það er ekki að ástæðulausu að því er haldið fram að ríkið sé lélegur bóndi því að óháð eignarhaldi og nýtingu lands er það hlutverk bónda að viðhalda og byggja upp verðmæti auðlinda (Forseti hringir.) á landi sem hann hefur umsjón með. Í því felst sjálfbærni.