148. löggjafarþing — 31. fundur,  28. feb. 2018.

mótun eigendastefnu ríkisins fyrir bújarðir.

[16:04]
Horfa

Haraldur Benediktsson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil sömuleiðis þakka hv. málshefjanda fyrir að hefja þessa umræðu og hæstv. fjármálaráðherra fyrir hans svör og fyrir það ljós sem hann kastaði á þá vegferð sem hann telur hægt að setja þetta málefni í. Ég get í öllum aðalatriðum tekið heils hugar undir að ríkið hefur of lengi trassað að taka málefni ríkisjarða föstum tökum og svara þeim spurningum sem upp hafa komið. Þetta er í kjölfar þess að við flytjum Jarðasjóð ríkisins milli ráðuneyta þar sem þessi keðja slitnar á einhvern hátt. Auðvitað þarf ábúðarkerfið sem slíkt að taka endurskoðun með breyttum tíðaranda. Ég held að það sé nákvæmlega það verkefni sem hæstv. ráðherra nefndi hér þegar hann nefndi möguleika á því að setja um það starfshóp, að ábúðarkerfið sjálft verði að taka breytingum sem og ábúðarlöggjöfin í landinu sem slík. Hún gildir að sjálfsögðu fyrir miklu fleira en bara ríkiseignir, hún gildir um allar jarðir.

Ég tel líka eðlilegt að við endurskoðum félagslegt hlutverk ríkisjarðanna. Það er eðlilegt og mikilvægt að við munum hvers vegna ríkið heldur á öllum þessum jörðum. Þær hafa bæði félagslegt og byggðalegt úrræði eins og hefur verið nefnt og ég held að markmiðið með nýjum búvörusamningum um nýliðunarstuðning og slíka hluti hafi með ákveðnum hætti tekið við af því sem áður var verkefni Jarðasjóðs ríkisins.

Í þriðja lagi vil ég segja að ég held að við eigum með markvissum hætti að losa um eignarhald ríkisins á þessum jörðum, selja þær, ná samkomulagi við þá sem sitja þessar jarðir í dag og losa um þessar eignir. Ég held að það sé ákaflega góður tími núna til að gera átak í sölu ríkisjarða og undirbúa það vel, til þess að styrkja byggð, til þess að mögulegt sé að stækka bú, efla byggðina og efla landbúnaðinn. Auðvitað er sjálfseignarbúskapurinn sterkasta og öflugasta form á rekstri þeirra mikilvægu fyrirtækja sem búskapur er og sjálfstæðir bændur eru alltaf sterkustu varðmenn sveitanna.