148. löggjafarþing — 31. fundur,  28. feb. 2018.

mótun eigendastefnu ríkisins fyrir bújarðir.

[16:06]
Horfa

Albertína Friðbjörg Elíasdóttir (Sf):

Herra forseti. Eins og fram hefur komið er ríkið stærsti einstaki landeigandi hér á landi og fer með ráðstöfun margra bújarða, jarðahluta og þjóðlenda. Það er því ljóst að ráðstöfun þessara eigna getur haft gríðarmikil áhrif á búsetu og landnotkun innan ákveðinna svæða og auðvitað á landsvísu. Það er óásættanlegt að fjármálaráðuneytið sé ekki fyrir lifandis löngu búið að ljúka við gerð stefnu varðandi jarðir í ríkiseigu. Málaflokkurinn hefur verið hjá ráðuneytinu í nokkur ár og þetta er ekki í fyrsta skipti sem umræða um þessi mál hefur átt sér stað í þinginu og hefði því ráðuneytinu átt að vera löngu ljós sá skýri vilji þingsins að mótuð yrði eigendastefna.

Þá er algerlega óásættanlegt, eins og kom fram hjá hv. málshefjanda, að þó nokkrir aðilar hafi búið við það um tíma að vita ekki hver staða þeirra og framtíð er. Ábyrgð ríkisins er því mikil og hún er ekki eingöngu út frá byggðasjónarmiðum eða með tilliti til styrkingar landbúnaðar heldur skipta þessar jarðir einnig máli þegar kemur að framlagi Íslendinga gagnvart loftslagsbreytingum, en a.m.k. hluta þessara jarða mætti auðveldlega nýta í skógrækt, uppgræðslu og mögulega endurheimt votlendis.

Þá eru einnig mikil tækifæri til þess í einhverjum tilfellum að nýta jarðhita á þessum jörðum til aukinnar matvælaframleiðslu.

Herra forseti. Betur má ef duga skal og ég trúi ekki öðru en að ráðherra einhendi sér nú í það með starfsfólki sínu í ráðuneytinu að ljúka við eigendastefnu ríkisins fyrir bújarðir.