148. löggjafarþing — 31. fundur,  28. feb. 2018.

endurnot opinberra upplýsinga.

264. mál
[16:22]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um endurnot opinberra upplýsinga. Með endurnotum opinberra upplýsinga er átt við að almenningur eða lögaðilar noti upplýsingar í öðrum tilgangi en ætlunin var þegar opinberir aðilar söfnuðu þeim saman. Ágætisdæmi um slík endurnot gæti verið að fyrirtæki í ferðaþjónustunni nýti upplýsingar um hnitsetningu ferðamannastaða frá Landmælingum Íslands til að skipuleggja og auglýsa ferðir sínar. Þetta frumvarp snýst því ekki um réttinn til aðgangs að upplýsingum heldur hvernig nota megi upplýsingar sem almenningur getur þegar nálgast á grundvelli upplýsingalaga eða annarra laga.

Reglur um endurnot er nú að finna í VII. kafla upplýsingalaga, nr. 140/2012, sem var bætt við lögin til að innleiða tilskipun 2003/98/EB um endurnotkun upplýsinga frá hinu opinbera. Þann 17. mars 2017 var tekin upp í EES-samninginn tilskipun 2013/37/ESB sem breytir ákvæðum eldri endurnotatilskipunar. Með þessu frumvarpi verða efnisákvæði nýrrar tilskipunar innleidd í íslenskan rétt.

Skýrar reglur um endurnot opinberra upplýsinga þjóna þeim markmiðum stjórnvalda að almenningur og atvinnulíf geti nálgast opin gögn með ópersónubundnum upplýsingum á einum stað og að opin gögn verði gjaldfrjáls og endurnýtanleg eins og kostur er. Á þessu sviði hefur verið nokkur þróun síðustu misseri, til að mynda hafa stjórnvöld opnað miðlæga gátt á vefnum opingogn.is þar sem almenningur getur nálgast gögn sem heimilt er að endurnota. Hins vegar liggur fyrir að setja þarf aukinn kraft í þetta verkefni, bæði hvað varðar fjölda gagnapakka sem hægt er að nálgast á gáttinni og gæði gagnanna, þ.e. að þar sé að finna gögn sem nýtast almenningi raunverulega til að stuðla að atvinnu- og verðmætasköpun. Markmið frumvarpsins er m.a. að styðja við þessa þróun.

Í I. kafla frumvarpsins er kveðið á um markmið laganna og gildissvið. Miðað er við að þau taki til handhafa framkvæmdarvalds, þ.e. ríkis, sveitarfélaga, stofnana þeirra og annarra opinberra aðila. Notast er við sömu afmörkun á gildissviði og gert er í lögum um opinber innkaup. Þá er horft til þess að eftir gildistöku tilskipunar 2013/37/ESB taka reglur um endurnot einnig til safna, bókasafna og skjalasafna, þar með talið háskólabókasafna.

Réttur almennings til endurnota opinberra upplýsinga er tryggður í II. kafla frumvarpsins og mælt fyrir um skilyrði hans. Endurnot opinberra upplýsinga eru þannig ekki leyfileg með hvaða hætti sem er, ekki má endurnota upplýsingar þannig að það brjóti í bága við önnur lög eða réttindi þriðja manns. Í 4. mgr. 1. gr. endurnotatilskipunarinnar er sérstaklega áréttað að slík endurnot megi ekki brjóta í bága við persónuverndartilskipun Evrópusambandsins.

Öll vinnsla persónuupplýsinga við endurnot opinberra upplýsinga verður því að uppfylla ákvæði persónuverndarlaga. Þá mega endurnot ekki heldur brjóta í bága við vernd hugverkaréttar samkvæmt höfundalögum en þó er heimilt að endurnota upplýsingar sem hið opinbera á eitt slík réttindi yfir.

Loks nær réttur til endurnota ekki til upplýsinga sem opinberir aðilar taka saman í viðskiptalegum tilgangi, þ.e. þegar vinnsla þeirra er hluti af starfsemi sem er rekin á samkeppnismarkaði.

Frumvarpið gerir ráð fyrir að opinberir aðilar geti bundið endurnot upplýsinga sérstökum skilyrðum eða leyfisskilmálum. Skilyrðin þurfa að þjóna málefnalegum tilgangi. Gæta skal jafnræðis við útfærslu þeirra og þau mega ekki takmarka möguleika á endurnotum eða samkeppni óhóflega.

Verði frumvarpið að lögum getur hið opinbera komið á fót stöðluðum leyfisskilmálum fyrir endurnotum að erlendri fyrirmynd.

Vegna ágalla á orðalagi gildandi lagaákvæða um endurnot opinberra upplýsinga hefur ekki verið talin til staðar heimild til að binda endurnot slíkum skilmálum. Á miðlægri gátt stjórnvalda fyrir opin gögn er því einungis að finna leiðbeiningar en þær geta með litlum breytingum myndað grunn að leyfisskilmálum ríkisins fyrir endurnotum opinberra upplýsinga. Opinberum aðilum er síðan óheimilt að veita sérleyfi til endurnota opinberra upplýsinga nema í þeim undantekningartilvikum þegar ætla má að upplýsingarnar verði ekki endurnotaðar án þess að slíkt leyfi liggi fyrir.

Í III. kafla frumvarpsins er fjallað um beiðni um endurnot og meðferð slíkra beiðna. Endurnotatilskipunin gerir skýrlega ráð fyrir að almenningur óski eftir heimild til endurnota með beiðni til viðkomandi stjórnvalds. Slíkt beiðnakerfi er einnig við lýði samkvæmt dönskum og sænskum lögum. Þrátt fyrir þetta geta opinberir aðilar að sjálfsögðu einnig ákveðið að endurnot tiltekinna upplýsinga séu heimil án þess að fyrir liggi sérstök beiðni. Á miðlægri gátt stjórnvalda fyrir opin gögn skal birta opinberlega lista yfir þau gögn sem heimilt er að endurnota upplýsingar úr.

Samkvæmt frumvarpinu verður skylt að afgreiða beiðni um heimild til endurnota svo fljótt sem verða má. Ef afgreiðsla dregst umfram 20 daga ber að skýra beiðanda frá ástæðum þess að málið hafi dregist og hvenær afgreiðslu sé að vænta. Eftir 40 daga er heimilt að kæra afgreiðsluna til úrskurðarnefndar um upplýsingamál sem úrskurðar um rétt beiðanda til endurnota. Taka ber fram að í endurnotatilskipuninni er fresturinn reiknaður í virkum dögum en með frumvarpinu eru gerðar ríkari kröfur til opinberra aðila með því að reikna frestinn með frídögum og helgidögum.

Þegar opinber aðili gerir upplýsingar aðgengilegar til endurnota er meginreglan sú að þær eru afhentar á því sniði sem þær eru varðveittar á. Þegar það er á annað borð mögulegt ber að veita aðgang að þeim á rafrænu, opnu og véllæsilegu sniði ásamt lýsigögnum og í samræmi við formlega opna staðla.

Heimildir opinberra aðila til að taka gjald fyrir endurnot voru þrengdar með tilskipun 2013/37/ESB. Áður var opinberum aðilum óheimilt að innheimta hærra gjald vegna endurnota en nam endurheimt kostnaðar af meðferð þeirra auk þess sem kallaður var sanngjarn hagnaðarhlutur. Nú verður hins vegar að meginstefnu óheimilt að innheimta hagnaðarhluta heldur takmarkast gjaldtakan við beinan kostnað opinbera aðilans af meðferð gagnanna.

Frumvarpið leggur áherslu á að gjaldtaka fari einungis fram þegar þörf er á. Þannig fer gjaldtaka ekki fram nema samkvæmt birtri gjaldskrá sem opinber aðili hefur sett og forsætisráðherra hefur staðfest. Í flestum tilfellum mun þessi regla leiða til þess að endurnot verða heimiluð án sérstaks endurgjalds. Þá leiðir einnig af þessari stefnumörkun að hið opinbera mun ekki taka sérstaka þóknun fyrir endurnot á upplýsingum sem hið opinbera á hugverkaréttindi yfir.

Samkvæmt endurnotatilskipuninni eins og henni var breytt með tilskipun 2013/37/ESB er skylt að tryggja heimild til að kæra ákvörðun opinbers aðila um að synja beiðni um heimild til endurnota. Frumvarpið gerir ráð fyrir að ákvarðanirnar og önnur ágreiningsmál um endurnotin verði kæranlegar til úrskurðarnefndar um upplýsingamál en ekki er gert ráð fyrir að þetta valdi verulega auknum önnum í störfum nefndarinnar.

Svo er það annað mál hvort styrkja þurfi úrskurðarnefnd um upplýsingamál sérstaklega til að anna þeim verkefnum sem hún hefur þegar með höndum, sem eru að sjálfsögðu ærin.

Samráði við gerð frumvarpsins var þannig háttað að það var birt á vef Stjórnarráðsins þann 23. janúar 2018 og óskað eftir athugasemdum en einnig var frumvarpið sent sérstaklega til Þjóðskjalasafns og héraðsskjalasafna til umsagnar. Umsagnir bárust frá fjármála- og efnahagsráðuneytinu, Þjóðskrá Íslands, Borgarskjalasafni Reykjavíkur, Héraðsskjalasafni Austfirðinga og tveimur einstaklingum. Gerð er grein fyrir efni umsagnanna í 5. kafla greinargerðar með frumvarpinu.

Virðulegi forseti. Með frumvarpi þessu er stefnt að því að innleiða samræmdar lágmarksreglur Evrópuréttarins um endurnot opinberra upplýsinga og mæla fyrir um þær í sérstökum lagabálki. Þannig ættu bæði einstaklingar og lögaðilar að geta betur áttað sig á réttarstöðu sinni og hvernig þeir eigi að bera sig að við að afla heimildar til endurnota. Þetta er í samræmi við þá stefnu ríkisstjórnarinnar að leggja áherslu á opna stjórnsýslu og gagnsæi.

Ég hef ekki fleiri orð að sinni um frumvarpið en legg til að því verði vísað til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar og 2. umr. að þessari lokinni.