148. löggjafarþing — 31. fundur,  28. feb. 2018.

endurnot opinberra upplýsinga.

264. mál
[16:31]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. forsætisráðherra fyrir kynningu á frumvarpinu, það virkar í fljótu bragði á mig sem afskaplega jákvætt. Ég verð þó að segja að þegar ég byrjaði að lesa það var það ekki alveg jafn jákvætt og ég hafði vonað að það væri, en vissulega jákvætt.

Ég er að velta fyrir mér í sambandi við beiðnirnar. Gert er ráð fyrir því að sá sem vill endurnota opinberar upplýsingar beini beiðni þess efnis til opinbers aðila. Það kemur fram í greinargerð frumvarpsins að þannig sé þetta í dönskum og sænskum lögum en í Noregi sé hins vegar miðað við að heimilt sé að endurnota allar upplýsingar sem almenningur hefur yfir höfuð rétt til aðgangs að. Ekki er gert ráð fyrir neinum sérstökum beiðnum um endurnot.

Hæstv. ráðherra kom aðeins inn á málsmeðferðina, og það kemur fram í frumvarpinu, þegar slíkar beiðnir berast, hvernig stjórnvaldi beri að haga því, kærufrestur og allt þetta. Það virkar allt saman mjög rökrétt, þannig séð, en ég velti fyrir mér hvort ekki væri einfaldara að sleppa þessu bara og hafa þetta eins og er í Noregi þannig að ekki þurfi sérstakar beiðnir. Það er best ef hinn almenni borgari sem hefur áhuga á að nýta gögn getur einfaldlega nýtt þau. Um leið og það kostar einhver samskipti við yfirvöld er búið að smíða ákveðinn þröskuld sem virkar ekki stór fyrir okkur hér sem þekkjum til en letur mann, fullyrði ég, óheyrilega ef maður þarf að eiga við stofnun sem hefur ekki mannafla eða tíma eða hvað það er til að svara beiðnum eða vera í samskiptum, ef það er óþarfi. Ef þeim tekst þetta í Noregi velti ég fyrir mér hvers vegna þessu sé hagað öðruvísi hér en þar.