148. löggjafarþing — 31. fundur,  28. feb. 2018.

endurnot opinberra upplýsinga.

264. mál
[16:56]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að taka undir orð þeirra tveggja hv. þingmanna sem töluðu hér á undan mér. Mig langar aðeins að gera grein fyrir nokkrum skoðunum sem ég er með á þessu ágæta máli.

Hvar eigum við að byrja? Byrjum á 3. gr. Þar er þessu beiðnakerfi lýst, þ.e. að opinberum aðilum sé skylt að verða við beiðni um heimild til að endurnýta fyrirliggjandi upplýsingar í vörslu opinbers aðila sem almenningur á rétt til aðgangs að á grundvelli upplýsingalaga eða annarra laga. Sambærilegt fyrirkomulag er í gildandi lögum í 31. gr. upplýsingalaga, reyndar mjög sambærilegt ef ekki næstum því eins, kannski ekki alveg. Hins vegar kemur fram að opinberir aðilar geti ákveðið að gera upplýsingar í vörslu sinni aðgengilegar til endurnota án þess að krefjast sérstakra beiðna.

Í þessu sambandi langar mig til að lesa 1. mgr. 15. gr. á þskj. 512 frá 141. þingi, sem var frumvarp stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar til stjórnarskrár grundvallað á frumvarpi stjórnlagaráðs. Þar segir, með leyfi forseta:

„Allir hafa rétt til aðgangs að opinberum gögnum.“

Mjög glæsileg lína, mér þykir mjög vænt um hana. Síðan eru þarna þrjár málsgreinar í viðbót vissulega. Þar er megintónninn sleginn, sem á að vera leiðarljós okkar þegar kemur að birtingu opinberra gagna vegna þess að þegar við tölum um opinbera aðila eða opinberar stofnanir á Íslandi þá finnst mér við oft vera að tala um ríkisstofnanir en ekki lýðveldisstofnanir. Við erum ekki að tala um samfélagið sjálft. Ég myndi halda að séu þetta opinber gögn sem almenningur á rétt á að hafa aðgang að þá eigi að líta svo á að eigandi gagnanna, eða sá sem á rétt á þeim, sé almenningur sjálfur en ekki ríkið sem sjálfstæð eining, aðskilin frá samfélaginu. Það er kannski meira svona hjal um muninn á ríki og lýðveldi. Meira um það síðar.

Ég spurði hæstv. forsætisráðherra í andsvörum áðan um það hvers vegna það kerfi sem væri í Svíþjóð og í Danmörku væri ekki lagt til hérna, þetta væri eins og í Noregi. Hæstv. ráðherra svaraði því svo sem ágætlega, en blessunarlega líka á þá lund að við ættum að nálgast þá átt þótt lagatæknileg útfærsla væri jafnvel einhvern veginn öðruvísi.

Ég verð eiginlega að lesa 5. gr. í heild sinni, með leyfi forseta:

„Opinberum aðilum er heimilt að áskilja að endurnot upplýsinga uppfylli sérstök skilyrði, svo sem um gæði upplýsinga og uppfærslu þeirra, t.d. með því að gera endurnotin leyfisskyld. Slík skilyrði skulu þjóna málefnalegum tilgangi, gæta skal samræmis og jafnræðis við útfærslu þeirra og þau mega ekki takmarka möguleika á endurnotum upplýsinganna eða samkeppni óhóflega.“

Í fljótu bragði, verð ég að segja, er ég eiginlega bara svolítið á móti þessari grein yfir höfuð, mér finnst ekki að hún eigi að vera þarna. Ég veit ekki hvers vegna opinberir aðilar ættu að setja sérstök skilyrði um gæði upplýsinga eða uppfærslu þeirra, að reyna að búa til eitthvert eftirlit með því. Ef maður ætlar að hvetja almenning til að nýta þessi gögn, þýðir það að maður er að hvetja almenning til þess að fikta með gögnin. Það þýðir að fólk þarf að geta sett þau fram á annan hátt en manni kannski hugnast sjálfum.

Ég ætla að nefna sérstakt dæmi sem ég ætla aðeins meira út í, það er thingmenn.is, sem er vefur sem ég hvet sérstaklega þingmenn til þess að líta aðeins á, en almenning sömuleiðis. Þar er haldið utan um ýmis gögn um okkur hv. þingmenn. Ef ég skoða sjálfan mig og aðra þingmenn þar þá kemst ég að því að sumar tölur eru ekki alveg eins og ég hefði búast við. Ástæðan fyrir því er sú að þegar höfundur þessa ágæta vefs gerði þetta var hann kannski ekki alveg með sama skilning og við þingmenn leggjum í það hvað felst í að leggja fram mál. Hv. forritari, sem er á bak við þennan vef, leit svo á það að vera meðflutningsmaður á máli væri í raun samtala með 1. flutningsmanni. En ég er í samskiptum við þennan ágæta herramann og hann tekur vel í mínar ábendingar. En það er dæmi um það hvernig það væri slæmt ef Alþingi — með því að gefa út þessi gögn um flutningsmenn, í hvaða kjördæmum þingmenn eru, hversu mikið við tölum og allt þetta, þessi gögn sem eru opinber á xml-sniði frá Alþingi, hefði sérstakar kvaðir á því, t.d. að passa að hafa svona hluti í lagi, held ég að þau væru minna notuð, ég held það yrði til trafala. Mér finnst mjög gott að höfundur thingmenn.is geti lagt gögnin fram eins og honum sýnist án þess að þurfa að ýta á takka til að samþykkja eitthvað og án þess að þurfa að borga fyrir það, þó ekki væri nema krónu. Það er ákveðinn þröskuldur að hefja gjaldtöku yfir höfuð sama hversu lágt gjaldið er.

Ég gæti alveg haft skoðanir á því hvernig gögnin sem Alþingi gefur út um okkur eru nýtt. Það er auðvelt að misskilja þau, það er auðvelt að setja þau upp í pínulítið vitlaust samhengi. En ég sé bara ekki fyrir mér að það væri verkefninu til góðs að ég færi að skipta mér af því. Ég held bara að afskipti mín, eins jákvæð og frábær og þau eflaust yrðu, væru meira til trafala en það að leyfa fólki að fikta svolítið og gera sín mistök sem fylgja öllu tölvufikti, svo mikilvægt sem það er.

Ég vil sömuleiðis gagnrýna það við 5. gr. að mér finnst hún afskaplega matskennd. Þar stendur að skilyrði skuli þjóna málefnalegum tilgangi og gæta skuli samræmis og jafnræðis við útfærslu þeirra; að þau megi ekki takmarka möguleika á endurnotkun upplýsinganna eða samkeppni óhóflega.

Því miður er það þannig með sumar ríkisstofnanir, langt frá því allar en sumar, að þeim finnst þær stundum vera afskaplega göfugar og gjafmildar þegar þær yfir höfuð gefa eitthvað af sér og finnst þær ægilega göfugar og finnst þær aldrei vera að stíga á tærnar á neinum þegar þær gera eitthvað sem öðrum finnst slæmt. Þannig að ég trúi því ekki að ríkisstofnanir almennt líti á gögnin eða störf sín sömu augum og hinn almenni borgari og geti það ekki, hafi aldrei gert það og muni aldrei gera það. Ég verð reyndar að segja að sumar stofnanir — ég ætla að nefna sérstaklega ríkisskattstjóra — eru afskaplega góðar í því að reyna hvað best þær geta. Það eru kannski helst lögin, landslögin, sem við setjum þeim, sem koma í veg fyrir að þeir standi sig jafnvel enn betur. En það er rétt að halda því til haga að sumar stofnanir eru mjög skilningsríkar á sjónarmið borgarans, en hvergi nærri allar.

Ég er eiginlega svolítið á móti þessari 5. gr. enn sem stendur. Ég vænti þess að nefndin fari betur yfir þetta og það sé þá alla vega rökstutt aðeins betur en gert er í greinargerð. Mér finnst rökstuðningurinn þar ekki sannfærandi.

Ég verð, verandi tölvunördið hér í herberginu, aðeins að fjalla um 9. gr. sem er sérstakt lostæti, verð ég að segja, sérlega frábær grein. Þar segir, með leyfi forseta:

„Þegar unnt er skal veita aðgang að upplýsingum til endurnota á rafrænu, opnu og véllæsilegu sniði ásamt lýsigögnum í samræmi við formlega opna staðla þar sem við á.“

Nú hef ég ekki séð orðið „véllæsilegt“ fyrr en nú, en ég fagna því mjög, vegna þess að ég hef leitað að hinu eina sanna rétta orði yfir það sem þarna er átt við. En á ensku myndi maður sennilega segja, með leyfi forseta, „computer processable“, eða eitthvað því um líkt, þ.e. að tölva geti tekið gögnin og unnið með þau einhvern veginn. En tölvur eru eins og við vitum öll í okkar daglega lífi nautheimskar og hafa ekki mannlega dómgreind sem betur fer. Þess vegna þarf að setja hlutina fram á ákveðinn hátt þannig að þær skilji þau. En sömuleiðis að lýsigögn fylgi þarna með, lýsigögn er það sem á ensku er kallað metadata. Og Alþingi sem dæmi gefur út mjög mikið af slíkum lýsigögnum um flest sem gerist á Alþingi, þar á meðal ræður, ræðutíma og þingmenn eins og ég fór yfir áðan. Það eru slík lýsigögn sem vefur eins og thingmenn.is notar.

Það er lítið annað að segja um 9. gr. nema hún er frábær og mætti sjást víðar og mætti reyndar vera einhvers konar meginregla í birtingu gagna. Það er framtíðarmúsík svokölluð sem ég vona að verði einn daginn spiluð hátt og oft við hvert tilefni.

10. gr. frumvarpsins fjallar um gjaldtöku. Ég er kannski ekki beinlínis á móti henni alveg strax, en gjaldtaka er ofboðslega mikil hindrun, miklu meiri hindrun en kannski löggjafinn og ríkisstjórnin átta sig á. Okkur finnst sjálfsagt ekkert mál að einhver borgi fyrir einhver gögn og í sjálfu sér er það ekki mikið mál. Flestir eru með einhvers konar kort sem þeir geta notað á netinu eða eitthvað. Þessi gjöld eru nú yfirleitt ekki mjög há. En þau eyðileggja hins vegar algjörlega tiltekinn kúltúr sem getur myndast, mjög góðan kúltúr, þ.e. kúltúr þeirra sem eru vanir því að meðhöndla upplýsingar, meðhöndla opinberar upplýsingar og vinna með þær. Aftur ætla ég að nota Alþingi sem dæmi vegna þess að lýsigögnin sem Alþingi dreifir eru mjög góð að mínu mati og þau henta mér vel, í mínum þingstörfum, ég nota þau mjög mikið til þess að skipuleggja þingstörf og fylgjast með og svoleiðis og skrifa hugbúnað undir það allt saman. Fleiri þingmenn gera það. Hv. þm. Björn Leví Gunnarsson, eins og frægt er orðið, notar þessi gögn mjög mikið. Thingmenn.is notar þessi gögn mjög mikið. Umsagnir.gogn.in notar þessi gögn mjög mikið. Það er afskaplega jákvætt að þegar þeir aðilar, sem eru upp til hópa einstaklingar, hittast eða eiga í samskiptum þá er ekkert sem stöðvar þá í hugmyndum.

Ef ég er t.d. að gera eitthvað eitt með gögnin en hv. þm. Björn Leví annað — segjum að við séum báðir óbreyttir borgarar; erum að ræða saman um það hvernig við nýtum þessi gögn — get ég stungið upp á einhverju og hann fer bara og gerir það. Það þýðir að það þarf ekki að búa til eitthvert verkefni, þarf ekki að búa til eitthvert samstarf. Við þurfum ekki að velta fyrir okkur hvort ég megi deila gögnum með hinum eða ekki. Þegar frjálsræði ríkir, þegar gögnin mega fara út um allt án gjalds og án sérstaks leyfis og án þess að samþykkja þurfi skilmála nýtast gögnin langbest, alveg yfirþyrmandi langbest. Jafnvel afskaplega lágir þröskuldar verða mjög háir í að fyrirbyggja þessa menningu þótt þeir fyrirbyggi kannski ekki að fólk geti notað gögnin. Þetta er í sjálfu sér lítið erfiði að yfirstíga, smávægilegt gjald eða ýta á einhvern takka til að fá leyfi til að nota gögnin eða skrifa undir einhverja skilmála eitthvað því um líkt; ekkert af þessu er eitt og sér stórt mál fyrir hvern og einn, en skiptir máli í því að búa til það sem við köllum í bransanum „hacking culture“, eða hakkaramenningu, þar sem fólk er hvatt til að fikta, hvatt til að prófa og sjá hvað það getur gert með gögnin. Gott ef það er ekki skilgreining einhvers staðar þar sem talað er um að gögn séu nýtt á hátt sem tengist ekki upprunalega tilganginum með því að birta þau — það er ekkert minna en skilgreiningin á hakki, eins og ég skil það, að nýta græjur og tæki og tól til að gera annað en upprunalega var ætlunin.

Það sem við köllum stundum hakkaramenningu er svona fikt og forvitnismenning. Hún er krakkinn sem opnar vídeótækið — ég er orðinn svo gamall, segi enn vídeótæki — eða opnar hvað svo sem notað er nú til dags, fiktar í því og prófar eitthvað nýtt og skemmir eitthvað stundum, það er bara þannig, og lærir kannski eitthvað á því að laga það. Það er alveg eins með gögn. Maður vill geta fiktað með þau, maður vill að aðrir geti fiktað með þau. Þá eru þessar tálmanir, eins léttvægar og þær virðast í fyrstu, afskaplega stórar í því að fyrirbyggja þá hakkaramenningu sem ég nefni hér.

Að öðru leyti hef ég ekki athugasemdir við þetta frumvarp. Ég hygg, eftir að hafa gluggað aðeins í upplýsingalögin eins og þau eru, að hér sé ekkert sem þrengir rétt notenda. Mig langar bara í ljósi sögunnar hér á Alþingi að biðja hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd að vera á varðbergi gagnvart því, því að það er frekar auðvelt, virðist vera, að gera mistök í lagasetningu hér á bæ, sér í lagi þegar við erum að færa eitthvað til eða setja ný heildarlög, eiga við margar greinar í einu. Mér finnst mikilvægt að við séum sérlega á varðbergi í því.

Ég hlakka eiginlega meira til 2. umr. um þetta mál þegar nefndarálit verður lagt fram. Ég hvet þá sem hafa áhuga á opinni stjórnsýslu, og því að nota opinber gögn til að senda inn umsagnir, ekki síst til að undirstrika hvernig þær eru nýttar, þá er ég auðvitað að tala um það ágæta fólk sem nýtir opinber gögn nú þegar. Að öðru leyti fagna ég þessu máli og hlakka til að sjá næstu skref í þessum málaflokki og sér í lagi hvað kemur út úr þeirri vinnu sem hæstv. forsætisráðherra lýsti hér í andsvörum við mig áðan.