148. löggjafarþing — 31. fundur,  28. feb. 2018.

endurnot opinberra upplýsinga.

264. mál
[17:10]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Mig langar að spyrja hv. þingmann sem sérfræðing í fikti og forvitni — af því að ég er nokkur áhugamaður um fikt og forvitni, sérstaklega þegar kemur að upplýsingum — því að þingmaðurinn nefndi gogn.in þá er önnur undirsíða þar, hjá þeim ágætu áhugamönnum um upplýsingar, sem heitir brosandi.gogn.in þar sem þeir sópuðu inn á vef öllum portrettmyndum af þingmönnum frá upphafi vega, keyrðu filter á þær allar þannig að þegar músin fer yfir þær fara þeir allir að brosa.

Þetta er æfing sem kannski hefur ekki mikla efnahagslega þýðingu en er gott dæmi um hvað fiktið og forvitnin getur leitt mann út á skemmtilegar brautir og akkúrat það sem mér finnst vera lýsandi fyrir það sem þingmaðurinn var að tala um, að það á að vera hægt að gera svona flippsíður án þess að vera fastur á bak við einhvern þröskuld gjaldtöku eða íþyngjandi notkunar skilmála. Mennirnir sem bjuggu til brosandi síðuna bjuggu líka til gátt að umsögnum um þingmál sem er mjög gagnlegt tæki fyrir lýðræðislegt aðhald almennings.

Þessa vegna langar mig að spyrja þingmanninn, af því að hann fór ágætlega yfir þá þröskulda, lágu þröskulda oft sem eru í þessu frumvarpi, hvort að hann sjái fyrir sér að við getum ekki sléttað þá út með nokkuð einföldum hætti og haldið þannig enn betur í markmið laganna án þess að fara eitthvað á svig við þá Evrópugerð sem liggur hér undir og verið er að innleiða.