148. löggjafarþing — 31. fundur,  28. feb. 2018.

endurnot opinberra upplýsinga.

264. mál
[17:15]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Af því að þingmaðurinn nefndi tillögu hans sjálfs um véllæsilegt snið þingmála er hún einmitt gott dæmi um hvernig framþróun í þessum málum getur skilað bættum vinnubrögðum, því að ég held að mörg af þeim mistökum sem við höfum verið að leiðrétta í lagasetningu hefðu mögulega ekki orðið ef tæknilega úrvinnslan á frumvarpsstigi eða úrvinnslustigi Alþingis hefði verið vandaðri. Þetta er nokkuð sem við tökum vonandi stór skref í á næstu árum.

Varðandi rétt til gjaldtöku velti þingmaðurinn fyrir sér hvort það væri svona einhvern veginn „ég á þetta, ég má þetta“ nálgun hjá þeim sem halda um gögnin. Ég held að það sé hluti af þessu. Það er rík tilhneiging hjá þeim sem eiga gagnasett, þó að það séu opinberir aðilar, að vilja ógjarnan láta þau af hendi, hvað þá í það hyldýpi sem skilmálalaus opinn gjaldfrjáls aðgangur er; þá er hann bara að henda þessum elskum sínum sem hann er búinn að safna saman árum saman út í hinn harða heim og hefur ekkert um það að segja hver tekur við þeim og gerir eitthvað á grunni þeirra. Ég held að það sé hluti af því. Ég held að hluti af því sé síðan bara einhver ljósritunaráhrif.

Stofnanir eru aldar upp við það að þegar beiðni kemur um gögn og upplýsingar þýði það bara fýsíska útprentun og ljósritun á gögnum sem er hægt að reikna í beinhörðum kostnaði. Það að fá allar xml-töflur þingsins eins og þær standa í dag á pappír myndi kannski kosta einhverja tugþúsundkalla, en það að hlaða þeim niður á sekúndubroti rafrænt (Forseti hringir.) ber ekki í sér kostnað fyrir nokkurn mann af því að þetta eru gögn sem hvort eð eru til.