148. löggjafarþing — 31. fundur,  28. feb. 2018.

endurnot opinberra upplýsinga.

264. mál
[17:20]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu mikið, vil bara þakka fyrir góð innlegg hv. þingmanna sem tekið hafa þátt í umræðunni. Ég vænti þess að þessi mál, og þær spurningar sem hér hafa verið reifaðar, verði tekin til skoðunar í hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd. 5. gr. hefur verið gerð að sérstöku umfjöllunarefni hér hjá nokkrum hv. þingmönnum og mér finnst ástæða til að árétta að engri stofnun er skylt að setja nein sérstök skilyrði. Þar af leiðandi mun þetta ekki þrengja neitt sem fyrir er heldur á fremur að virka hvetjandi með því að setja þessi lög svona fram í þessum sérstaka lagabálki. Það er því ekki nokkur leið að túlka frumvarpið á þann veg að þrengt verði að stofnunum sem hafa þegar birt sínar upplýsingar og heimilað endurnot. Landmælingar voru til að mynda nefndar hér. Almennu skilyrðin eru mjög almenn eins og fram kemur í 4. gr. Satt að segja þekki ég þess ekki dæmi að sett hafi verið nein sérstök skilyrði fyrir endurnotum gagna. Þessi heimild er inni ef slík sérstök skilyrði yrðu sett af einhverjum ástæðum. Ef þau þættu ómálefnaleg — nú höfum við, eins og ég segi, engin dæmi um það — væri hægt að kæra það til úrskurðarnefndar um upplýsingamál. Það er mikilvægt að hafa í huga að þetta er eingöngu heimild og alls ekki nein skylda.

Síðan hefur aðeins verið rætt um gjaldtöku. Mikilvægt er að hafa í huga að frumvarpið fjallar um endurnot en ekki aðgang, það er alls ekki verið að tala um gjaldtöku fyrir aðgang að gögnum, hefur engin áhrif á gjaldtöku fyrir hann. Eftir því sem næst verður komist er hins vegar mjög sjaldgæft að gjald sé innheimt fyrir endurnot upplýsinga og í frumvarpinu er gert ráð fyrir að svo verði áfram; einungis þegar viðkomandi opinberi aðili hefur séð ástæðu til að setja sér sérstaka gjaldskrá um endurnotin sem þá miðast við einhvern hugsanlegan kostnað viðkomandi stofnunar. Það er hins vegar stefna stjórnvalda að opin gögn séu gjaldfrjáls og endurnýtanleg eins og kostur er. Það er hin almenna stefna. Mér fannst mikilvægt að árétta það að meginreglan er sú.

Mér fannst þetta vera þau atriði sem bar hæst í máli hv. þingmanna og nefni þau þess vegna. Ég vona að frumvarpið fái góða og vandlega umfjöllun í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd og verði afgreitt hér. Ég held að þetta sé framfaraskref. Við erum að gera umhverfi fyrir endurnot opinberra gagna betra. Hér var aðeins rætt um opin gögn og hvernig við getum látið það svæði verða virkara, það kom fram í máli hv. þm. Andrésar Inga Jónssonar. Þar er vinnuhópur að störfum, ég vil koma því á framfæri. Hann hefur ekki enn skilað tillögum um hvernig við getum látið það svæði verða virkari vefgátt þannig að aðgengið verði betra og þar sé fleiri gögn að finna. Vonandi munum við sjá einhverja niðurstöðu úr því á næstunni.

Að öðru leyti ætla ég ekki að hafa um þetta fleiri orð. Ég þakka hv. þingmönnum fyrir góða umræðu.