148. löggjafarþing — 31. fundur,  28. feb. 2018.

skipting útsvarstekna milli sveitarfélaga.

200. mál
[17:24]
Horfa

Flm. (Þórunn Egilsdóttir) (F):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir þingsályktunartillögu um skiptingu útsvarstekna á milli sveitarfélaga. Hún hljóðar svo:

„Alþingi ályktar að fela samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra að skipa starfshóp sem móti tillögur í samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga um skiptingu útsvarstekna milli sveitarfélaga með það að leiðarljósi að hún endurspegli sem best útgjöld sveitarfélaga fyrir veitta þjónustu. Starfshópurinn horfi m.a. til tilvika þar sem einstaklingur á frístundahús eða jörð eða starfar í öðru sveitarfélagi en hann á lögheimili í.

Ráðherra skili tillögum til Alþingis fyrir árslok 2018.“

Tillaga þessi var áður flutt á 146. og 147. löggjafarþingi en náði ekki fram að ganga. Hér í dag er hún endurflutt með örlitlum breytingum með tilliti til athugasemda sem komu frá Byggðastofnun.

Samkvæmt 1. málslið 2. mgr. 20. gr. laga um tekjustofna sveitarfélaga, nr. 4/1995, greiða menn sem bera ótakmarkaða skattskyldu hérlendis útsvar til þess sveitarfélags þar sem þeir eiga lögheimili. Hafi einstaklingur átt lögheimili í fleiri en einu sveitarfélagi á tekjuárinu skal leggja á hann útsvar sem skiptist hlutfallslega eftir búsetutíma, samanber 2. málslið sömu málsgreinar.

Sveitarfélög geta þó haft verulegan kostnað af þjónustu við aðra en þá sem þar eiga lögheimili, t.d. einstaklinga sem eiga þar frístundahús eða jörð og dvelja þar jafnvel drjúgan hluta ársins án þess að stunda þar búskap. Sem dæmi þar um má nefna kostnað við snjómokstur. Hér er því lagt til að starfshópi verði falið að móta tillögur í samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga um skiptingu útsvarstekna milli tveggja eða fleiri sveitarfélaga þannig að hún endurspegli sem best útgjöld sveitarfélaga fyrir veitta þjónustu.

Það hefur gerst og gerðist kannski mest upp úr aldamótum, við þekkjum það sem gerðist þá í uppsveiflunni sem var, að mjög margir einstaklingar keyptu jarðir og jörðum var skipt upp í smábýli, lítil lögbýli sem menn hafa síðan nýtt í vaxandi mæli til dvalar, jafnvel atvinnu að hluta til, annars vegar á þeim stað og svo í því sveitarfélagi sem þeir annars búa og hafa lögheimili í. En margir þessara aðila hafa áhuga á að taka þátt í samfélaginu þar sem þeir hafa keypt eignir og leggja sitt af mörkum og dvelja þar jafnvel hálft ár eða meira eða stóran hluta ársins á þeim stað. Þess vegna er ekki óeðlilegt að þeir geti skipt útsvarstekjum sínum á milli sveitarfélaga hafi þeir áhuga til þess.

Í mörgum löndum í kringum okkur hafa menn haft áhyggjur af þessari þróun. Það er sjálfsagt að hafa þær áhyggjur hérna líka. Við þurfum jú að hafa gott landbúnaðarland til matvælaframleiðslu. Þess vegna hafa sveitarfélög í auknum mæli tekið upp skýrar reglur þar að lútandi.

Í landsskipulagsstefnu sem var samþykkt á þarsíðasta kjörtímabili voru einmitt líka sett ákvæði til stuðnings sveitarfélögum, að hafa skýra stefnu um hvernig þau geti tryggt það í skipulagi að góðar jarðir til matvælaframleiðslu verði nýttar áfram til hennar. En það eru líka til önnur landsvæði þar sem ekkert er af því og er til bóta að halda áfram uppbyggingu fyrir þá sem vilja koma og dvelja í samfélaginu.

Þess vegna getur þessi tillaga hjálpað til við að skapa tekjur til sveitarfélaga. Menn sem hafa vilja til þess að skipta búsetu sinni hafi þá möguleika á því.

Ég vil líka vísa í umræðuna sem var hérna fyrr í dag um eigendastefnu varðandi bújarðir ríkisins. Þetta getur allt tvinnast saman. En kannski erum við að afmarka okkur hérna og horfa betur á þá einstaklinga sem dvelja að hluta til í einu sveitarfélagi með lögheimili en eru svo stóran hluta ársins í öðru sveitarfélagi.

Það sem hefur gerst, og það er mikil áskorun fyrir mörg minni sveitarfélög sem standa frammi fyrir því að stór hluti jarða hefur verið seldur til einstaklinga sem búa ekki þar, er að sveitarfélögin fá nær engar tekjur af þeim af því að af sölunni er greiddur fjármagnstekjuskattur. Oft og tíðum kaupa menn þessar jarðir vegna hlunninda. Af hlunnindunum fara heldur engar tekjur til sveitarfélagsins. Þær fara til ríkisins. Margir af þeim eigendum eins og ég sagði áðan, og ég hef heyrt á tal þeirra og átt samtal við nokkuð marga þeirra, hafa áhuga á því að vera þátttakendur á fleiri en einn hátt í samfélögunum þar sem þeir eru og leggja til framlög sín til að byggja upp innviðina þar og vera meiri þátttakendur.

Ég vona að tillagan fái framgang. Að henni standa, auk mín sem hér stend, Líneik Anna Sævarsdóttir, Halla Signý Kristjánsdóttir, Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, Ari Trausti Guðmundsson og Karl Gauti Hjaltason.

Að lokinni umræðu vona ég að málið fái framgang og legg til að því verði vísað til umhverfis- og samgöngunefndar.