148. löggjafarþing — 31. fundur,  28. feb. 2018.

gerð áætlunar um stafræna endurgerð íslensks prentmáls.

219. mál
[18:02]
Horfa

Ari Trausti Guðmundsson (Vg):

Frú forseti. Ég þakka hv. flutningsmanni, Kolbeini Óttarssyni Proppé, fyrir frumkvæðið. Það er ansi fríður flokkur þótt ég segi sjálfur frá sem þarna fylgir honum og verkefnið er sett mjög skýrt fram, að kanna möguleika þess að ná samningum við höfundaréttarhafa um afnot stafrænnar endurgerðar ritverka þeirra. Ég hef rætt einhvern tímann við kunnáttumenn um skjalagerð og hvers konar varðveisla þetta er. Mér skilst að á alþjóðavettvangi hafi það verið samþykkt að sú gerð skjala sem mun verða geymd af öllum tegundum er það sem við köllum PDF, þannig að það er ágætt að það komi fram hérna ef það á við í þessu tilviki, sem ég held.

Burt séð frá tækninni finnst mér þessi þingsályktunartillaga ákaflega mikilvæg og þörf og mér þykir hún þörf og mikilvæg vegna íslenskunnar, vegna ritmálsins, vegna þess að það er óendanlega dýrmætt við að varðveita tungumál, eða þróa tungumál ef við viljum nota það orð, það er ritmálið sjálft, ekki bara talaða málið, heldur ritmálið.

Síðan er það menningarinnar vegna, vegna þess að við getum alveg slegið því föstu að Íslendingar hafa framleitt mikið af áhugaverðum ritum, skrifað mikið af áhugaverðum ritum, þannig að þetta er stoð undir menninguna. Síðan er það sögunnar vegna, mannkynssögunnar og Íslandssögunnar, vegna þess að hún skrifast ávallt að hluta til í bókmenntum, hvers konar bókmenntum.

Í greinargerðinni er gerð grein fyrir afrekum Norðmanna í þessum efnum. Það er ákveðið fordæmi, ég ætla ekki að rekja það hér, en það vekur okkur til dáða. Þau 270.000 aðgengilegu rit sem þar eru eru virkilega þannig að við getum litið til þeirrar reynslu.

Rætt er hér líka um ákveðna tortryggni sem hefur komið fram hjá bæði — [Þingmaður ræskir sig.] — þetta virðist vera landlægt hérna, það er kannski húsasótt í húsinu, eða við Vinstri grænir komnir úr æfingu, hver veit. [Hlátur í þingsal.] Nema hvað, það hefur komið fram ákveðin tortryggni hjá íslenskum rithöfundum og útgefendum. Það er aðeins minnst á það hér og ég þekki það mætavel, verandi rithöfundur sjálfur. Það tengist að hluta til hljóðbókaútgáfu á Íslandi. Ýmsir gallar hafa verið á henni og gagnrýnisverðar hliðar sem ég ætla ekki að fara út í, en það er kannski ein ástæðan fyrir þessari tortryggni að einhverju leyti. Líka þegar horft er til tónlistar. Við þekkjum deilurnar um höfundarétt og greiðslur og annað fyrir tónlist, ég ætla heldur ekki að fara út í það. Ég hef grun um að íslenskir rithöfundar horfi svolítið til þessa þegar þeir sýna því kannski ekki nægilegan áhuga eins og fram kemur í greinargerðinni.

Talað er um prentarf. Arfur fyrir mér bendir til þess að höfundarnir séu þá sennilega allir látnir, en auðvitað er það ekki rétt. Það er mjög mikilvægt að núlifandi höfundar hafi bæði möguleika á að opna gátt í þennan stafræna heim án endurgjalds lesenda að eigin ósk, eða a.m.k. hugleiði það hvort það sé ekki rétt. Ég vona að sem flestir geri það í raun og sann.

Fram kom áðan þegar var verið að ræða þetta um söluvöruna að það er auðvitað mat höfunda og útgefenda hvenær bók hættir að vera þannig söluvara að ástæða sé til að kippa henni af markaði eða setja hana þarna inn ef menn vilja nota þetta mark, þ.e. hvenær bók á að fara í stafræna endurgerð og hvenær ekki. Ég þekki það mjög vel að maður getur keypt bækur eftir sjálfan sig, sem eru kannski orðnar tíu ára, á algjörum spottprís, 500 kr., 1.000 kr., á bókamarkaði einhvers staðar eða slíku, þannig að í raun og veru eru bækur söluvara svona í það heila tekið tiltölulega skamman tíma, nema einhver sérrit eins og Íslendingasögur eða annað sem hér hefur verið nefnt.

Ég á sennilega yfir 50 útgáfur, 50 rit sem hafa verið gefin út eftir mig. Ég get alveg lýst því yfir að ég væri alveg til í að setja allnokkrar af þeim endurgjaldslaust á vefinn, eins og við segjum. Þetta er auðvitað mín einkaskoðun, ég er ekki að mæla fyrir munn annarra rithöfunda.

Áætlað er að stafvæða 50% bóka sem hafa komið út eftir 1850, það eru yfir 40.000 rit. Ég er alveg sannfærður um að einkaaðilar munu ekki sýna því mikinn áhuga. Ástæðan er ósköp einföld, hagnaður af slíkri útgáfu er í raun og veru enginn og ég á mjög erfitt með að sjá einkaaðila sækjast eftir vinnu við þetta eða að reka einhverja vefi eða annað slíkt án þess að þar komi eitthvert endurgjald fyrir, nema fyrir þá auglýsingar eða eitthvað annað. Ég skal ekki um það segja. Ég held að einkaframkvæmd í þessu sé vonlítil eða vonlaus.

Ég nefndi íslenskuna áðan í þessu stutta spjalli mínu og vil líta svo á að þessi framkvæmd, ef hún verður að veruleika sem ég vona, sé í raun og veru mikilvægur liður í baráttunni fyrir því að íslenskan lifi sem lengst. Maður getur þá horft til reynslu okkar, sem eru orðin vel fullorðin, af þróun í orðaforða ungs fólks á Íslandi. Ég lít svo á að einhver mesta hætta sem steðjar að íslenskunni komi frá minnkandi orðaforða ungs fólks á Íslandi. Ég er ekki að tala um börn endilega, ég er að tala um fólk sem er komið milli tektar og tvítugs eða rúmlega það, sem, margt hvert alla vega, ræður yfir kannski einni sögn. Ég hef stundum sagt, jafnvel hér í ræðustól, þegar auglýstur var í ákveðnum fjölmiðli dagskrárliður og auglýsingin var svona: „Myndlistarmenn gera tónlist og tónlistarmenn gera myndlist.“ Þetta er nákvæmlega það sem er íslenskunni mjög hættulegt.

Ég ætla að ljúka máli mínu á því að fagna þingsályktunartillögunni aftur og sé til þess að hún muni ganga til hv. allsherjar- og menntamálanefndar, væntanlega.