148. löggjafarþing — 31. fundur,  28. feb. 2018.

gerð áætlunar um stafræna endurgerð íslensks prentmáls.

219. mál
[18:10]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að hafa mörg orð um þessa ágætu tillögu sem hv. þm. Kolbeinn Óttarsson Proppé leggur hér fram og var svo elskulegur að biðja mig og fleiri um að vera meðflutningsmenn á, sem ég er núna.

Íslenskan er í verulegri hættu. Það virðist vera frekar óumdeilt og það er mikið til vegna tækniframfara, en sömuleiðis vegna þess að enskan hefur rutt sér til rúms sem gagnlegra tungumál en íslenskan þegar kemur að ýmsum samskiptum, augljóslega við fólk sem talar ekki íslensku en þegar meira eða minna allir Íslendingar, sér í lagi í yngri kantinum, tala reiprennandi ensku og fjölmargir í raun ekki miklu verr en móðurmálið sjálft, þá er íslenskan í hættu. Það er þróun sem við getum ekkert spornað við að mínu mati af neinu viti, vegna þess að enskan er einfaldlega mjög gagnlegt mál. Við viljum ekki hafa minni ensku, við viljum bara passa að íslenskan lifi þetta af og verði áfram málið sem við tölum hér. Fyrir því eru nokkur rök umfram þau rómantísku sem þó mætti alveg segja að stæðu á eigin fótum. Eitt er það að við þurfum að geta skilið söguna okkar. Við verðum að geta skilið menninguna okkar eins og hún er í dag.

Ég naut þess sérlega heiðurs að búa í Manitoba í Kanada í smástund á sínum tíma og kynntist þar fólki sem var af svokölluðum „first nations“, eins og það er kallað á ensku, ég hugsa að á íslensku kalli maður það enn indíána. Það eru ættbálkar eins og Cree, Ojibwe, Oji-Cree o.fl. Það er fólk sem hefur verið farið alveg ofboðslega illa með í gegnum tíðina. Ég ætla svo sem ekki út í þá sögu. Það sem stendur eftir er að þetta fólk þekkir oft ekki sögu sína, það skilur ekki húmor frá öfum sínum og ömmum, hefur misst rosalega mikil tengsl við uppruna sinn vegna þess að búið er að taka af því tungumálið, sem er alveg skelfilegt. Það er einhver viðleitni til að halda í það og endurvekja, en það gengur mjög hægt vegna þess að skaðinn er svo mikill og hann er skeður nú þegar.

Sömuleiðis átti þessi þróun, þessi ágangur á tungumálin, sér stað — mjög áhugaverð tungumál meðan ég man — áður en internet-upplýsingatæknibyltingin varð. Við erum í fyrsta lagi svo heppin að ágangurinn á okkar tungu er ekki vegna beins ofbeldis eins og var þá gagnvart þessum málum í Norður-Ameríku heldur vegna friðsamlegra menningarlegra áhrifa. Í öðru lagi byrjar þetta svo seint að við eigum fullan kost á því að halda í íslensku til skrásetningar, þannig að hægt er að halda í hana lengur. Það væri bæði erfiðara að koma henni fyrir kattarnef og sömuleiðis auðvelt að ná henni til baka að því leyti sem hún víkur fyrir ensku eða öðrum málum með tímanum. Það kemur í ljós að norska er aftur komin í tísku út af tilteknum sjónvarpsþætti, sem er svo sem ánægjulegt.

Þessi tillaga er að mínu mati afskaplega mikilvæg til þess að aðstoða við að ná þessu markmiði. Í greinargerð tillögunnar er farið aðeins inn á það hvernig þetta er gert í Noregi, með mjög ágætum árangri, verður ekki efast um það. Mig langar hins vegar að nefna eitt til íhugunar fyrir þá aðila sem koma til með að vinna í þessum starfshópi og sér í lagi þá rétthafa sem koma til með að eiga í samningaviðræðum, ef þessi tillaga nær í gegn, sem hún gerir vonandi, við yfirvöld eða starfshópa, eða hvernig sem það verður, þegar verkefnið er komið á fót. Ég ætla að byrja á því að segja eitt, af því að hér er alla vega einn rithöfundur í salnum, að sjálfur kann ég eiginlega ekkert sem varðar höfundarétt, ég kann að forrita, kann að semja tónlist, ég kann að skrifa texta. Móðir mín er kvikmyndagerðarmaður, faðir minn er hljóðmaður. Ég er alinn upp í því sem heitir „show biz“, þannig að ég skil mætavel áhyggjur rétthafa og áhyggjur sem höfundar, rithöfundar, tónlistarmenn og allir þessir aðilar, forritarar, hafa af dreifingu síns efnis án endurgjalds og án stjórnar.

Í fyrirkomulaginu í Noregi, eins gott og það er að því leyti að þær nær markmiðinu með glæsibrag, er tvennt sem gert er sem mig langar til að vara við með þeim fyrirvara að þetta er útfærsluatriði sem tilheyrir ekki tillögunni sjálfri. Það er annars vegar það að norska útfærslan er takmörkuð við norskar IP-tölur, þ.e. við tæki sem hafa norskar IP-tölur — IP-tala er bara kennitala tækis á internetinu; öll tæki á internetinu þurfa að hafa einhvers konar kennitölu, það er eiginlega ógerningur að útskýra þetta almennilega í stuttu máli. Ég vara við því. Í fyrsta lagi er íslensk tunga eiginlega bara töluð á Íslandi, þannig að ég held að ekki sé mikill áhugi á því að nálgast slíkt efni utan Íslands nema auðvitað af Íslendingum erlendis. Þá verður maður að spyrja sig: Til hvers að takmarka það?

Að því sögðu þá set ég mig ekkert svakalega mikið á móti því að takmarka hluti út frá IP-tölum. Ég geri það sjálfur í öryggisskyni daglega. En mér finnst það óþarfatálmun. Þetta er ekki slík tálmun að hún beinlínis kannski skemmi það hvernig tæki virka og dregur ekki úr frelsi fólks á netinu, a.m.k. ekki með beinum hætti, en mér finnst að fólk þurfi svolítið að velta fyrir sér af hverju það vill takmarkanirnar, hvaða markmiði sé verið að reyna að ná. Ég held ekki að með því að takmarka þessi verk við íslenska IP-tölu sé verið að verja hagsmuni rétthafa, ég held ekki. Eins og ég segi: Þetta er meira til íhugunar fyrir þá aðila sem koma til með að ræða útfærsluna á þessu efni þegar að því kemur.

Hitt sem notað er í Noregi, að mér skilst, er tækni sem er skammstöfuð DRM, eða á ensku, með leyfi forseta: „Digital Rights Management“. Það er tækni sem er til þess fallin að reyna að gefa út efni þannig að einungis sé hægt að nota það með tilteknum hugbúnaði eða á tilteknum tækjum. Þessi tækni er vægast sagt varhugaverð. Ég get sagt það fullum fetum að ég er beinlínis á móti henni. Ég vil ekki að hún sé notuð. Ég vil ekki að tæki séu gerð þannig að þau geri ráð fyrir henni, en því miður eru mörg tæki þannig.

Það er nefnilega eitt sem er svo fallegt við upplýsingatæknina: Það er hægt að gera hluti við upplýsingar sem ekki var endilega upprunalega markmiðið. Það er hægt að skoða hvernig heimasíða er gerð. Hér er ég með heimasíðu Alþingis. Ég get skoðað hvernig hún er gerð. Ég get búið til nýja síðu sem lítur svipað út en ekki alveg eins eða ég get lært eitthvað af henni. Svona lærði ég að gera heimasíður. Svona lærði ég að forrita með því að skoða kóða frá öðrum, með því að skoða hvað liggur að baki verkum annarra. Það er gott. Þannig á það að vera.

DRM-tækni og viðlíka tækni storkar því svolítið að hægt sé að fikta með efnið. Auðvitað er það gagngert markmið með beitingu tækninnar. Ég skal nefna eitt dæmi sem er reyndar kannski ekkert sérlega alvarlegt svona í fljótu bragði: Ef maður kaupir tónlist eða eitthvert fræðsluefni því um líkt í hljóði og setur það niður á símann sinn, og þessi DRM-tækni er notuð, þýðir það að efnið má bara vera á þessum síma. Nema hvað, ég ætla að fara að synda og kaupi mér þess vegna heyrnartól sem ég get notað í sundi. Þá þarf efnið að fara þangað. Þá bara get ég ekki notað það þótt ég hafi borgað fyrir það. Þótt ég sé með leyfi til að nota efnið get ég það ekki vegna þess að tæknin er hugsuð til þess að hindra mig í því.

Þetta er lítið dæmi um það hvernig hægt er að nota þessa tækni til þess einfaldlega að stjórna efni um of. Maður rífst ekki mikið við þessa tækni frekar en tölvur almennt, þær hafa rétt fyrir sér og þannig er það bara, fjárans stærðfræðin ræður.

Ég velti fyrir mér, sérstaklega þegar kemur að þessu, hvort þörf sé á þessari tækni. Aftur: Þetta er meira íhugun til þeirra sem koma til með að hanna útfærsluna á þessu. Hér erum við nefnilega að tala um svo merkilegt fyrirbæri sem íslenska tungu. Íslensk tunga er í alvörunni merkilegt mál fyrir margar sakir. En eitt af því sem ég myndi halda að væri afskaplega mikilvægt til að varðveita hana er það að við getum fiktað í henni og búið til greiningartæki fyrir hana. Ef DRM-tækni er notuð til þess að einungis sé hægt að lesa eitthvað á skjánum og setja það á annan disk en ekki hægt að gera neitt með það þá storkar það því markmiði og myndi ganga gegn hugmyndinni um að varðveita íslenskt mál, jafnvel þótt það geti hugsanlega einhvern veginn þjónað hagsmunum rétthafanna, alla vega myndu margir segja það.

Ég vildi vara við þessari tækni. Eins og ég segi tilheyrir þetta ekki tillögunni sjálfri heldur fellur í (Forseti hringir.) skaut útfærsluaðila sem ég vona að íhugi þetta mjög vel og vinni þetta verk með hliðsjón af því markmiði að vernda íslenska tungu.