148. löggjafarþing — 31. fundur,  28. feb. 2018.

gerð áætlunar um stafræna endurgerð íslensks prentmáls.

219. mál
[18:24]
Horfa

Smári McCarthy (P):

Frú forseti. Mig langar að koma aðeins inn á þá hlið sem mér finnst kannski ekki vera síst mikilvæg í þessu máli, þetta er mjög gott mál og alveg gríðarlega mikilvægt að það nái í gegn, þ.e. að við erum með þessu máli að verja þekkingu, ekki bara íslensku. Við erum að viðhalda þekkingu. Viðhald þekkingar er atriði sem er samfélögum alveg ómælanlega mikilvægt. Það er algjörlega ómetanlegt að viðhalda þeirri þekkingu sem hefur safnast í gegnum tíðina. Mér verður hugsað til orða Ebens Moglens, prófessors í lögfræði við Columbia-háskóla, sem spurði eitt sinn hvar heimurinn væri ef Einstein hefði aldrei fengið að læra eðlisfræði. Ég man nú ekki hitt dæmið sem hann tók, en segjum ef Bach hefði ekki fengið að læra tónlist eða ef Laxness hefði aldrei fengið að læra íslensku.

Hvernig getur verið siðferðilega réttlætanlegt að útiloka á einhverjum tímapunkti nokkurt mannsbarn frá þekkingu? Þetta snýst nefnilega kannski ekki síst um réttlæti að aðgengi. Þá eru einhverjir sem hugsa til kostnaðarhliðanna og þeirrar fátæktar sem er í samfélaginu og ekki bara í okkar samfélagi heldur öðrum. Það er ekki síst þess virði að velta fyrir sér þeirri menningarlegu fátækt sem verður til þegar öll góðu gömlu ritverk síðustu áratuga og alda gleymast. Fátt er jafn gefandi og að rölta um milli bókahillna, t.d. í Kolaportinu, og finna gömlu gimsteinana sem felast inni á milli bóka, verk sem manni hefði aldrei komið til hugar að einhver hefði tekið sér tíma til að skrifa.

Að sama skapi veit ég ekki hversu mörg ritverk ég hef lesið og jafnvel keypt og sett í bókasafnið mitt heima eftir að hafa kynnst tilvist þessara bóka í gegnum netið þar sem þau rit hafa verið sett upp í mislöglegu formi. Stundum fullkomlega löglega þar sem höfundaréttur hefur verið fallinn úr gildi, og stundum einhvers konar útdráttur á ýmsum vefsíðum, en einnig oft, og það er kannski leiðinlegt að segja það, þar sem einhver hefur tekið sinn tíma í að skanna það allt saman. Ég reyni alltaf að styðja höfunda þegar ég get og kaupi bækur. Ég kaupi kannski fullmikið af bókum, en hef líka skrifað eitthvað sjálfur, að vísu aldrei heila bók einn, en bækur með öðrum.

Því segi ég eins og hv. þm. Helgi Hrafn Gunnarsson, það er ekkert annað sem ég raunverulega kann en að forrita og skrifa. Ég kann minna í tónlist en þingmaðurinn, þannig að ég er töluvert vanmegnugri. Því skiptir mig töluvert meira máli fyrir vikið að ritverkin sjálf séu aðgengileg þannig að við getum nýtt okkur þá þekkingu.

Í þessu samhengi er vert að benda á að við erum náttúrlega alls ekki þau fyrstu til að hugsa þessar hugsanir. Í svokallaðri upplýsingasamfélagstilskipun Evrópusambandsins, sem er oft kölluð höfundaréttartilskipun Evrópusambandsins, þar er náttúrlega saga á bak við það að á þeim tíma sem hún var tekin upp hafði Evrópusambandið ekki heimild til þess að setja löggjöf hvað varðaði höfundaréttarmál, sem hefur breyst síðan með upptöku Lissabon-sáttmálans. En í þeirri tilskipun er þó undanþága, ein af 22 minnir mig, sem heimilar að sé það ekki gert í hagnaðarskyni af bókasafni, safni eða einhvers konar skjalasafni eða einhverju álíka, þá má gera endurrit af gögnum án þess að greiða þurfi neitt sérstaklega fyrir það til rétthafa. Þetta vekur vissulega spurningar. Ég er alls ekki að mæla á móti því að gengið sé til samninga við rétthafa.

Ég veit ekki á þessu augnabliki hvort þessi tiltekna undantekning hafi verið tekin upp í íslenskum lögum á sínum tíma. Það skiptir kannski ekki höfuðmáli. Markmiðið tillögunnar er ekki að nýta það. Tilvist þessarar undanþágu sýnir að krafan í Evrópu og víðar um heim um aukið aðgengi að menningarsögulegum verðmætum hverrar þjóðar er að aukast. Við vitum hvernig miðaldir koma til þegar þekking gleymist vegna þess að einhvers konar andveruleikafár kemur yfir. Við vitum líka að sama marki hversu mikið af bókum er jafnvel í sínum frumritum að grotna niður og skemmast vegna þess að fólk hefur ekki hirt nógu vel um þær. Þarna var gerð tilraun af hálfu Evrópusambandsins til þess að bjóða upp á þann möguleika að tryggður yrði menningarsögulegur arfur landa til framtíðar.

Ég tel að þessi tillaga gangi í rauninni mun lengra með þá hugmynd og er hún virkilega góð fyrir þær sakir, vegna þess að ég lít svo á að það sé ekki siðferðilega réttlætanlegt að útiloka nokkurt mannsbarn frá þekkingu. Auðvitað eigum við að viðhalda íslenskunni. Við eigum að viðhalda allri þeirri þekkingu sem íslenska þjóðin hefur safnað í gegnum tíðina. Við eigum að njóta þess að eiga svona flottan arf.