148. löggjafarþing — 31. fundur,  28. feb. 2018.

þingsköp Alþingis.

222. mál
[18:45]
Horfa

Flm. (Smári McCarthy) (P):

Frú forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um þingsköp Alþingis, sem snýst um líftíma þingmála. Frumvarp þetta var áður lagt fram á 144. löggjafarþingi og 146. löggjafarþingi en náði ekki fram að ganga og er nú endurflutt óbreytt.

Í frumvarpi þessu eru lagðar til breytingar á störfum þingsins sem varða líftíma þingmála, þinglega meðferð mála og fyrirkomulag vinnu fastanefnda.

Í 48. gr. gildandi laga um þingsköp Alþingis er kveðið á um að þingmál sem ekki hafa hlotið lokaafgreiðslu við þinglok falli niður. Af þessari reglu leiðir að flutningsmenn þingmála sem ekki fást afgreidd á yfirstandandi löggjafarþingi þurfa að endurflytja mál á því næsta vilji þeir halda málinu lifandi í þeirri von að fá það tekið fyrir í nefnd og í þingsal og að lokum afgreitt.

Fyrirkomulag þetta hefur nokkuð verið gagnrýnt enda getur það leitt til þess að þingmál „sofni“ í nefnd eða falli niður þar sem ekki hefur fengist umræða um það eða meðferð þess ekki verið lokið fyrir þinglok. Fyrirkomulagið gefur formönnum nefnda og meiri hluta nefnda vald til að stöðva mál og koma þar með í veg fyrir að þau fái eðlilega meðferð og komi til atkvæðagreiðslu í þingsal. Slíkt verður að teljast verulegur ágalli á fyrirkomulaginu þar sem ítarleg lýðræðisleg umræða allra þingmanna ætti að fara fram um mál á öllum stigum þess. Hvert þingmál ætti að hljóta fulla og tæmandi þinglega meðferð og vera rætt í þremur umræðum á þingi ef um lagafrumvarp er að ræða og tveimur umræðum ef um þingsályktunartillögu er að ræða.

Þingsköp Alþingis gera ráð fyrir að nefndir þingsins skili af sér nefndaráliti um þau þingmál sem til þeirra er vísað og eru álit nefndanna hugsuð sem innlegg í umræðu um viðkomandi mál í þingsal og að lokum er það þingheimur sjálfur sem skal taka lokaafstöðu til þingmála. Framkvæmdin hefur þó verið önnur og í raun réttri hefur formaður eða meiri hluti nefndar möguleika á að tefja afgreiðslu máls í nefndinni svo lengi fram eftir þinginu að málið endi á því að falla niður. Þó ber að halda því til haga að samkvæmt 2. mgr. 15. gr. þingskapa getur fjórðungur nefndarmanna óskað eftir að nefndin haldi fund og taki á dagskrá tiltekið þingmál. Enga reglu er þó að finna í þingsköpum sem skyldar nefndir til þess að taka afstöðu til þingmála né getur tiltekinn hluti nefndarmanna óskað eftir því að nefnd taki afstöðu til mála eða afgreiði þau.

Á Norðurlöndunum er fyrirkomulag um líftíma þingmála nokkuð misjafnt. Fyrirkomulag íslensku þingskapanna er fengið frá Danmörku þar sem sama reglan gildir, þ.e. þingmál falla niður við lok hvers löggjafarþings hafi þau ekki hlotið lokaafgreiðslu.

Í Noregi er reglan almennt sú að þingmál geta lifað út kjörtímabilið. Óafgreidd stjórnarfrumvörp er þá hægt að taka upp á næsta kjörtímabili að fenginni tillögu um það frá forsætisnefnd sem áður hefur fengið álit um slíkt frá ríkisstjórn. Hvað varðar þingmannamál og nefndarálit er heimilt að taka þau upp á næsta þingi innan sama kjörtímabils nema viðkomandi þingmaður eða þingnefnd dragi mál sitt til baka.

Í Svíþjóð gildir að þingmál verður að afgreiða á því kjörtímabili þegar það var lagt fram. Hafi fastanefndum ekki tekist að leggja fram álit sitt fyrir lok kjörtímabils telst málið vera fallið niður. Þó gildir sá fyrirvari að þingið sjálft getur samþykkt að tiltekið mál verði tekið á dagskrá á fyrsta löggjafarþingi næsta kjörtímabils.

Finnska þjóðþingið hefur sett sér þær reglur að verði þingmál ekki afgreitt á yfirstandandi þingi getur meðferð þess haldið áfram á næsta löggjafarþingi nema kosningar hafi verið þar á milli. Hvað varðar fyrirspurnir og yfirlýsingar ríkisstjórnar þá halda þær ekki gildi sínu milli þinga en meðferð á skýrslum ráðherra getur þó haldið áfram á næsta þingi ef þingið ályktar um það. Um meðferð þingmála sem varða alþjóðamál er reglan sú að meðferð þeirra heldur áfram á næsta þingi ef þörf krefur og jafnvel þótt kosningar hafi farið fram milli þinga.

Frumvarp þetta felur í sér innleiðingu á nokkurs konar blöndu af því fyrirkomulagi sem gildir á Norðurlöndunum. Í 1. gr. er lagt til að 48. gr. þingskapa Alþingis verði breytt á þann veg að þingmál falli ekki niður fyrr en við lok kjörtímabils þingsins. Þannig heimilar ákvæðið að þingmál sem hlutu ekki lokaafgreiðslu á því löggjafarþingi þegar þau voru lögð fram megi taka upp á næsta þingi og ljúka þá þinglegri meðferð þeirra. Þó er gerður sá fyrirvari að flutningsmaður, hvort sem er þingmaður, þingnefnd eða ráðherra, getur dregið mál til baka ef svo stendur á. Slíkt kæmi mögulega til greina þegar aðstæður tengdar þingmálum hafa breyst og markmið lagasetningar eru ekki lengur raunhæf.

Þá felst einnig í greininni bein krafa á þingnefndir um að afgreiða öll þau mál sem til þeirra er vísað fyrir lok hvers löggjafarþings. Með ákvæðinu er reynt að sporna við því að mál dagi uppi í nefndum. Þó er tiltekið í ákvæðinu að nægilegt sé að nefnd afgreiði nefndarálit um þingmál á yfirstandandi löggjafarþingi en áframhaldandi umræða um þingmál getur beðið næsta löggjafarþings. Þannig má sjá fyrir sér að þingnefndir afgreiði fjölda mála að vori eða í september og síðan fari fram umræða um málin strax á nýju löggjafarþingi. Fyrsti málsliður ákvæðisins opnar einmitt fyrir þessa leið með því að takmarka ekki líftíma þingmála við hvert löggjafarþing.

Verði frumvarp þetta að lögum er ljóst að takast þarf á við nokkur tæknileg atriði sem tengjast m.a. líftíma þingmála, svo sem vegna málsnúmera og annarra atriða í meðförum þingsins en flutningsmenn telja engin veruleg vandkvæði því tengd. Það er mat flutningsmanna að breytingar þær sem frumvarpið boðar muni styrkja störf og lýðræðislega virkni þingsins.

Frumvarp áþekkt þessu var lagt fram á 138. löggjafarþingi en var vísað frá af forseta á grundvelli 2. mgr. 43. gr. þingskapalaga. Er það eindreginn vilji flutningsmanna að málið fái að ganga til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar og metið verði á vettvangi nefndarinnar hvort frumvarpið teljist fela í sér breytingu á stjórnarskrá og forseta beri þannig að vísa því frá. Að mati flutningsmanna felur frumvarpið ekki í sér breytingu á stjórnarskrá. Í stjórnarskrá er gerður greinarmunur á kjörtímabili og löggjafarþingi. Sá greinarmunur kemur þannig fram að þegar um er að ræða löggjafarþing er fjallað um „reglulegt Alþingi“, samanber 22. gr. þar sem fram kemur að forseti setji reglulegt Alþingi ár hvert; og 35. gr. þar sem segir: „Reglulegt Alþingi skal koma saman ár hvert hinn fyrsta dag októbermánaðar …“ Í 44. gr. stjórnarskrárinnar er ekki vísað til „reglulegs Alþingis“ heldur til Alþingis. Til samanburðar má nefna að í 52. gr. segir: „Alþingi kýs sér forseta og stýrir hann störfum þess.“ Ef túlka ætti hugtakið „Alþingi“ í 44. gr. þannig að um löggjafarþing sé að ræða mundi það jafnframt þýða að kjósa ætti nýjan forseta þings á hverju löggjafarþingi, samanber 52. gr. Að framansögðu er ljóst að stjórnarskráin stendur ekki í vegi fyrir því að breyta megi þingsköpum með þeim hætti sem frumvarpið mælir fyrir um.

Þetta mál er flutt af þingflokki Pírata, hv. þm. Smára McCarthy, Birni Leví Gunnarssyni, Halldóru Mogensen, Helga Hrafni Gunnarssyni, Jóni Þór Ólafssyni og Þórhildi Sunnu Ævarsdóttur.

Ég biðst afsökunar á að hafa gleymt að óska eftir leyfi forseta fyrir því að vitna til áðurnefndra laga.

Nú veit ég að þetta er þingmál sem vekur upp mjög blendnar tilfinningar hjá þingmönnum og ýmsum öðrum og eru margar góðar ástæður fyrir því. Það er oft talað um að mál batni til muna þegar þau eru lögð fram aftur og aftur. Á móti kemur að með því að setja ekki þessa ótrúlegu tímapressu sem í einu þingi felst geta málin hugsanlega verið betur unnin með minni tímapressu í nefnd og skapast kannski ráðrúm til að fara betur ofan í hvert mál og kannski fer minni tími til spillis við að fara yfir mál sem hafa komið margsinnis fram.

Nú hef ég ekki tölu á því, og ég reyndi nú að setja saman smáforrit til að telja það, hversu marga klukkutíma við notum á hefðbundnu þingi, t.d. 146. þingi, í að ræða um mál sem er búið að leggja margsinnis fram áður. Til dæmis í gær var mælt fyrir þingmáli sem var verið að leggja fram í fjórtánda skiptið og hugsa ég að með því séu klukkutímarnir sem þingið hefur notað í það ágæta mál orðnir ansi margir, í það minnsta myndi ég giska á 14 en líklega 30, 40 eða fleiri. Þegar heilu vinnuvikurnar fara í að fara yfir mál aftur og aftur á byrjunarstigum meðferðar þess og lítið verður eftir vegna þess að málin falla niður í nefnd eða komast ekki nægilega langt til að hægt sé að klára þau grunar mig að við höfum möguleika á að nýta tíma okkar betur í þessu þingi. Þetta er tími sem hefði betur nýst í eitthvað annað.

Vonin er að með því að fara þessa leið höfum við möguleika á bæði betri frumvörpum og betri þinglegri meðferð frumvarpa. Auk þess myndi þetta leiða til þess að mál hlytu afgreiðslu á hvorn veginn sem er, þ.e. að vilji þingsins, hvort sem hann er jákvæður eða neikvæður, kæmi með einhverju móti fram. Ég veit að það stuðar ansi marga vegna þess að oft er frekar óþægilegt að þurfa að taka afstöðu til margra mála sem koma fram. Slíkt myndi kannski koma upp um rétt og raunveruleg viðhorf þeirra sem þar eiga hlut að máli. En mig grunar að það geti verið frekar jákvætt fyrir framþróun lýðræðisins að raunveruleg viðhorf fólks komi fram. Svo er náttúrlega alltaf hægt að fela sig á bak við einhvers konar afstöðuleysi. Auðvitað kemur á móti að það að hleypa málum ekki út úr nefnd hvað eftir annað, ár eftir ár, er afstöðuleysi af mun alvarlegra tagi. Það er alla vega ekki heiðarlegt afstöðuleysi.

Þetta frumvarp leggjum við í þingflokki Pírata líka fram núna sem innlegg í umræðuna um bættar starfsaðstæður í þinginu. Hingað til hefur lítið borið á frumvörpum eða tillögum eða í raun og veru nokkru til þess að bæta starfsaðstæður þingsins sem þó hefur verið boðað af ríkisstjórninni. Það er leiðinlegt. En það er nægur tími. Það er skammt liðið á kjörtímabilið og ég verð að segja að ég er bara mjög ánægður með hvað það hefur verið miklu betri vinnufriður og betri samstaða á þinginu núna en í fyrra. Það er allt annað líf að vera hérna. Í því ljósi er þetta kannski frumvarp sem er tímabært að ræða af fullri alvöru.

Hugsanlega er þetta ekki rétta leiðin. Ég er alveg til í að sætta mig við að til sé einhver önnur og betri leið til að nálgast þetta mál. En þá myndi ég vilja að það kæmi fram því að þetta er augljóst vandamál. Það er augljóst að við erum að sóa tímanum með því að vera alltaf, trekk í trekk, að fara yfir sömu málin. Það er hálfpartinn kaldhæðnislegt að hér er verið að mæla fyrir þessu máli í þriðja skiptið. Auðvitað eigum við að geta gert betur en þetta. Við eigum ekki að þurfa að sóa tíma hvers annars.

Í því skyni að stunda það sem ég boða ætla ég ekki að hafa þetta miklu lengra að sinni. En ég mælist til að frumvarpið fari til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar og til 2. umr. Vonandi getum við svo klárað þetta mál núna. Ég held að tími þessa máls sé kominn.