148. löggjafarþing — 31. fundur,  28. feb. 2018.

þingsköp Alþingis.

222. mál
[19:00]
Horfa

Brynjar Níelsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég held að það sé rétt hjá hv. þingmanni að þetta mál veki blendnar tilfinningar. Ég held nefnilega að það sé ástæða fyrir því að mál sofni í nefnd. Það er væntanlega vegna þess að oft á tíðum eru mál, ekki síst þingmannamál, sett fram einhvern veginn í hita leiksins, menn halda jafnvel að þau séu vinsæl, en oftar en ekki eru þau vanhugsuð. Það er kannski ástæðan fyrir því að þau séu ekki afgreidd út úr nefnd. Þau eru raunverulega ekki þannig að hægt sé að greiða um þau atkvæði. Þess vegna fara þau ekki úr nefnd og ekki inn í þingið. Ég held að það sé stóri vandinn í þessu. Ég tala nú ekki um þegar mál koma hér ár eftir ár jafn vanhugsuð og áður og lítið eða ekkert bætt. Ég held að það gagnist okkur lítið að láta slík mál lifa heilt kjörtímabil.

Ég sé heldur ekki beinlínis vandann við þetta. Nú getur það auðvitað verið þannig að gott mál nær ekki að klárast. Þá leggja menn það fram aftur næst, bara í upphafi þess þings. Þá er drjúgur tími til að fara yfir það. Ef þau eru góð og það er greinilega stuðningur við þau fá þau auðvitað eðlilega afgreiðslu.

Ég sé eiginlega ekki stóra vandamálið við óbreytt kerfi. Mér sýnist það líka vera meira og minna eins í öðrum löndum, (Forseti hringir.) það er eins og málin hálflifi stundum. En ég sé ekki að þetta mál sé til bóta.