148. löggjafarþing — 31. fundur,  28. feb. 2018.

þingsköp Alþingis.

222. mál
[19:04]
Horfa

Brynjar Níelsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég held að við séum að sóa alveg jafn miklum tíma með því að láta málin lifa áfram og vera lengur. Þá erum við komin með fleiri mál á dagskrá því það gerist sjálfkrafa ef við látum þau lifa. Ég vil helst ekki greiða hér atkvæði eða gefa upp afstöðu til máls, þið Píratar ættuð nú að vera sammála mér um það, sem maður gæti hugsanlega verið tiltölulega sáttur við en það er bara ekki tilbúið og ekki þannig úr garði gert að hægt sé að taka almennilega afstöðu til þess. Þið Píratar þekkið það. Þið nefnið það oft að mál séu þannig að ekki sé hægt að taka afstöðu til þeirra.

Ég held að það sé ágætt í sjálfu sér ef mál dregst á langinn og nær ekki afgreiðslu og kemst jafnvel ekki úr nefnd, það eitt gefi okkur tilefni til þess að fara betur yfir það, gera það þannig úr garði að auðvelt sé að taka afstöðu til þess. Ég held að frumvarp eins og þetta spari okkur í raun og veru ekki tíma. Það fjölgar málum á dagskrá. Það er ekki alltaf þannig að menn fari yfir frumvörpin aftur. En ef það fær að lifa láta menn það lifa. Þannig að í raun værum við ekki að spara neinn tíma. Ég held að sóunin sé alveg sú sama.

Ég held að það sé mikilvægast fyrir okkur þingmenn, tala nú ekki um þingmannafrumvörp, að við vöndum okkur betur við málin, fáum betri og meiri aðstoð, eins og kannski er verið að gera svolítið núna, við að gera þau þannig úr garði að við getum klárað þau á hverju þingi fyrir sig.