148. löggjafarþing — 31. fundur,  28. feb. 2018.

þingsköp Alþingis.

222. mál
[19:06]
Horfa

Flm. (Smári McCarthy) (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég get svo sem tekið undir sumt í þessu. Auðvitað væri æskilegt ef þingmannamál væru almennt betur útbúin og vissulega hef ég sjálfur lagt fram mál sem ég hef svo reynt að endurbæta milli þinga og er ég að vona að ég geti lagt eitt slíkt fram fljótlega. En það er einmitt kjarni málsins að illa unnin mál eru staðreynd. Mörg þeirra hafa orðið að lögum. Við höfum nýlega, frú forseti, í það minnsta fimm dæmi um hrikalega illa unnin mál frá dómsmálaráðuneyti sem voru keyrð í gegn á miklum hraða vegna þess að það var mikil þörf á því að sögn einhverra. Þau hafa orðið að lögum og gert beinlínis lögin slæm og jafnvel hættuleg fyrir fólk.

Þetta mál hefði hugsanlega gert það að verkum að þingleg meðferð hefði farið aðeins hægar yfir, hefði aðeins verið betur ígrunduð, menn hefðu ekki verið í einhverjum flýti að reyna að klára allt í lok maí eða byrjun júní vegna þess að einhverjum liggur svo á að komast í sumarfrí, heldur væri tími til þess að gefa sér andrými og hugsa aðeins málið og klára meðferðina að hausti eða næsta ári eða hvernig sem það er.

Ég trúi því að vissulega eigum við að leitast eftir því að gera betur, en stundum þurfum við bara aðeins meiri tíma. Þetta höfum við Píratar margsinnis bent á, meira að segja í einu slíku máli, en tíminn gefst ekki, hvorki þá né nú. Þess vegna held ég að þetta sé einmitt góð lausn á því vandamáli.