148. löggjafarþing — 31. fundur,  28. feb. 2018.

þingsköp Alþingis.

222. mál
[19:08]
Horfa

Óli Björn Kárason (S) (andsvar):

Frú forseti. Það er nú ýmislegt sem ég hef við þetta frumvarp að athuga. Ég geri hins vegar ráð fyrir að hv. 1. flutningsmaður og félagar hans í Pírötum hafi vandað vel til verka, þetta er í þriðja skiptið sem frumvarpið er lagt fram, þannig að það hlýtur að vera vel ígrundað.

Menn geta komið hér með mál undir þeim hatti að verið sé að reyna að greiða fyrir góðum málum, tryggja framgang mála sem ættu að ná fram o.s.frv., en síðan rekst allt hvað á annars horn, þ.e. mér sýnist flutningsmenn ekki hafa hugsað málið alveg til enda.

Vil ég þá vekja sérstaklega athygli á því sem er í 3. mgr. 1. gr.: „Fastanefndir þingsins skulu leggja fram nefndarálit í málum sem til þeirra hefur verið vísað fyrir lok hvers löggjafarþings.“

Nú spyr ég: Hvernig í ósköpunum ætlar hv. þingmaður og 1. flutningsmaður að tryggja að þetta verði? Ef fastanefnd fær mál á vordögum, yfirgripsmikið mál til afgreiðslu, þá skuli, samkvæmt þessum nýju þingskapalögum sem hér er lagt til að taki gildi, nefndin alveg óháð málafjölda, alveg óháð umsvifum eða þyngd þess máls sem nefndin á að fjalla um, afgreiða málið með nefndaráliti. Hann hlýtur að ganga út frá því að nefndin vinni sín störf, tryggi það að viðkomandi þingmál, frumvarp eða þingsályktunartillaga, sé þannig úr garði gert að hægt sé að taka afstöðu til þess o.s.frv. Ég spyr: Hvernig í ósköpunum ætlar hv. þingmaður að tryggja það að fastanefndin geti yfir höfuð afgreitt mál með þeim hætti sem lagt er til?