148. löggjafarþing — 31. fundur,  28. feb. 2018.

þingsköp Alþingis.

222. mál
[19:10]
Horfa

Flm. (Smári McCarthy) (P) (andsvar):

Frú forseti. Þetta er svo sem ágæt spurning. Ef önnur og betri leið er til staðar til að ná markmiðum okkar — vegna þess að markmiðin okkar eru nokkuð skýr og ég held að hv. þingmaður ætti að geta sammælst þeim því að við erum að reyna að minnka tímasóun og betrumbæta verklagið á þinginu — má hv. þingmaður endilega láta mig vita hver sú leið er, vegna þess að ég held að þetta sé markmið sem er þess virði að ná. Mér var kennt á sínum tíma að kosturinn við gagnrýni er að koma með betri hugmynd. Þannig að ég legg það til.

Ég verð að viðurkenna að ég hef aldrei verið, eins og hv. þm. Óli Björn Kárason, formaður í fastanefnd Alþingis, þannig að ég er ekki endilega í bestu aðstöðu til að meta það hvernig hægt er að klára þingmál og meðferð þeirra í nefndum á réttum tíma. En ég hefði haldið að það væri metnaður hjá öllum formönnum fastanefnda þingsins að reyna að klára öll þau mál sem koma fyrir. Nú veit ég líka til þess að stundum er niðurstaðan sú að gerð eru mjög snubbótt og einföld nefndarálit þar sem lagt er til að málum sé vísað frá vegna þess að þau eru illa unnin. Það hefur komið fyrir. Ég held að það mætti alveg auka töluvert á þá hefð, ef mál eru illa unnin yfir höfuð, að hægt sé að greiða gang þeirra.

Eins og ég sagði áðan á ég von á því að þetta verði til þess að þingmenn fáist frekar til að draga mál sín til baka þegar þau eru illa unnin. Það er náttúrlega eðlilegasta leiðin í þessu jaðartilfelli (Forseti hringir.) sem hv. þingmaður gerir að athugasemd sinni.