148. löggjafarþing — 31. fundur,  28. feb. 2018.

þingsköp Alþingis.

222. mál
[19:13]
Horfa

Óli Björn Kárason (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég ætla aðeins að halda áfram. Við hv. þm. Smári McCarthy sátum saman í efnahags- og viðskiptanefnd á síðasta kjörtímabili. Áttum þar held ég bara alveg ágætissamstarf og ég hygg að það hafi verið efnahags- og viðskiptanefnd sem tryggði það að eitt af þingmannamálum Pírata náði fram að ganga og varð að lögum. Það er hægt að vinna mál með ýmsum hætti og rétt að halda því til haga.

Ég held hins vegar að svona breytingar verði til þess að það verði þá að gera miklu strangari kröfur til frágangs á þeim þingmálum sem eru lögð fram, hugsanlega þarf líka, eins og t.d. þekkist í Bandaríkjaþingi, að hafa fleiri flutningsmenn en við gerum ráð fyrir þegar kemur að þingmannamálum. Ég hefði talið að það myndi koma aðeins til móts við þessar hugmyndir, sem ég held að vísu að séu byggðar á misskilningi. Ég held að það sé betra fyrirkomulag, það er ekki gallalaust frekar en annað sem við erum að fást við hér, þá deyja þau mál bara drottni sínum og ef þingmenn telja að mál sé svo mikilvægt þá hafi þeir alltaf möguleika á að taka það upp aftur á nýju löggjafarþingi. Mér finnst það miklu skynsamlegra.

Við erum ekkert að sóa tíma okkar með því að fara yfir mál og láta þau bara sofna ef svo ber undir. Mér finnst það alveg koma til greina. Ég hefði miklu frekar séð fyrir mér að þingmenn Pírata flyttu breytingartillögu um þingskapalög sem legði í rauninni bann við því að framkvæmdarvaldið, ríkisstjórnin, legði fram frumvörp, nema þá hugsanlega fjárlög, og kæmi þess í stað með þingsályktunartillögu þar sem væri farið fram á það við þingið (Forseti hringir.) að hafist væri handa við smíði lagafrumvarpa á vegum þingsins um þetta mál þar sem tekið væri tillit til þessara mála o.s.frv. Kannski væri hægt að ræða það og væri raunveruleg bragarbót en ekki þetta.