148. löggjafarþing — 31. fundur,  28. feb. 2018.

þingsköp Alþingis.

222. mál
[19:15]
Horfa

Flm. (Smári McCarthy) (P) (andsvar):

Frú forseti. Já, ég verð eiginlega að segja að þetta er áhugaverð tillaga hjá hv. þm. Óla Birni Kárasyni. Ég velti fyrir mér af hverju hann hefur ekki sjálfur lagt hana fram. En ég get ekki sagt að á þessu augnabliki hafi ég í rauninni haft tíma til þess að melta þá hugmynd og meta hvort hún sé yfir höfuð góð.

Það er alveg rétt að við áttum mjög gott samstarf í efnahags- og viðskiptanefnd. Það var eitt mál okkar sem náði þar fram að ganga, það var mjög gott, mál sem í rauninni einhverra hluta vegna hefur ekki enn þá tekið gildi svo vel sé. Á sama þingi, reyndar voru kosningar á milli þannig að þetta myndi ekki gilda í þessu tilfelli, tókum við fyrir mál um afleiðuviðskipti, miðlæga mótaðila og afleiðuviðskiptaskrá, sem nú er aftur búið að taka fyrir. Það varð töluverð umræða um málið í nefndinni og umræða var um það í þingsal. Nú er aftur búið að halda ræður um það hér, m.a. flutningsræðu, reyndar voru fundahöld um það eingöngu einn klukkutími og fimm mínútur sem þykir afar stutt í samanburði við t.d. tillöguna um breytingar á áfengislögum sem voru til meðferðar í fyrra. Það er fullt af vinnu sem sóast með þessu.

Það er alveg ljóst að eitthvað þarf að gera til þess að bæta þingsköpin. En þar sem ég tala fyrir tómum sal þar sem viðmælandi minn hefur gengið út úr salnum þá ætla ég að láta staðar numið hér.