148. löggjafarþing — 32. fundur,  1. mars 2018.

vopnaflutningar íslensks flugfélags.

[10:33]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Herra forseti. Þögn segir oft mikið meira en orð. Hún er orðin æpandi, þögn formanns Sjálfstæðisflokksins, valdamesta flokks landsins, í stórum, alvarlegum og umdeildum málum. Þetta á sannarlega við um mál unga mannsins sem misþyrmt var í fangelsi og sendur úr landi. Það var þjóðinni til skammar.

Þögn hæstv. fjármálaráðherra um vopnamálið er líka æpandi. Hann sér enga ástæðu til að bregðast við þótt komið hafi í ljós að ríkisstjórnir sem hann hefur átt aðild að og stjórnað að miklu leyti hafi gefið heimildir til að senda vopn til Sádi-Arabíu sem líkur eru á að séu áframsend til þess að slátra saklausu fólki, börnum og konum í Jemen og Sýrlandi, á stöðum sem hv. þm. Rósa Björk Brynjólfsdóttir minnti á að væru kallaðir sláturhús heimsins af fráfarandi mannréttindastjóra Sameinuðu þjóðanna.

Samkvæmt lögum ber að hafa samráð við utanríkismálanefnd í meiri háttar málum sem tengjast utanríkismálum. Þetta er óhjákvæmilega slíkt mál. Ég spyr hæstv. ráðherra: Af hverju telur hann að það hafi ekki verið gert? Og í ljósi ríkrar rannsóknarskyldu stjórnvalda: Af hverju hefur málið ekki verið skoðað betur og upplýst í gegnum tíðina?

Þar sem hæstv. fjármálaráðherra er nú orðinn býsna þekktur af því að fela gögn og stinga skýrslum undir stól, af hverju ætti þjóðin virkilega að trúa því að hæstv. fjármálaráðherra og fyrrverandi forsætisráðherra þjóðarinnar hafi ekki vitað neitt um málið?

Ég spyr, herra forseti: Er þetta enn eitt dæmið um leyndarhyggju Sjálfstæðisflokksins?