148. löggjafarþing — 32. fundur,  1. mars 2018.

vopnaflutningar íslensks flugfélags.

[10:35]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég held að málið sem er hér tekið upp verðskuldi það að menn sleppi öllu svona ómerkilegu skítkasti eins og hv. þingmaður fer út í hér. Að saka menn um leyndarhyggju og að sópa undir teppi einhverjum málum, og blanda saman algerlega óskyldum atriðum, held ég að sé umræðu um þetta mál ekki til framdráttar.

Staðreyndin er sú að það er meira en sjálfsagt og það er eðlilegt að þingið, á réttum vettvangi, spyrji spurninga, leiti skýringa á því hvernig svona hlutir gerast, hvað það er í stjórnkerfinu hjá okkur sem mögulega hefur farið úrskeiðis og leitt til þess að á vegum íslenskra aðila hafi verið flutt vopn sem mögulega hafa ratað í hendur þeirra sem hér er vísað til, þ.e. inn á átakasvæði.

Ég held að við verðum öll að gangast við því að í umræðu um mál af þessum toga, og þetta mál reyndar alveg sérstaklega, lifum við í töluvert flóknum heimi. Það er ekki einfalt fyrir íslenska stjórnsýslu að komast til botns í sérhverju tilviki. En þegar um vopn er að ræða ættu menn svo sannarlega að fara varlega og gá að sér og leita skýringa og upplýsinga. Mér finnst nýjasta dæmið sem við höfum úr íslenska stjórnkerfinu sýni að það sé einmitt það sem menn vilja gera.

En ef við viljum reyna að skilja þetta mál til hlítar og spyrja réttra spurninga um hvort atriði séu í íslenskri stjórnsýslu, í stjórnkerfinu, sem þarfnist endurskoðunar í tilefni þessa máls sem nú er komið upp er langbest að sleppa öllu skítkasti út af óskyldum málum í ræðustól.