148. löggjafarþing — 32. fundur,  1. mars 2018.

bankakerfið.

[10:40]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Herra forseti. Ég beini fyrirspurn til hæstv. forsætisráðherra og formanns ráðherranefndar um efnahagsmál um nýjustu upplýsingar af gangi mála í Arion banka málinu þar sem hefur komið á daginn núna, líklega bara einum eða tveimur dögum eftir að ríkisstjórnin afhenti hlut ríkisins til vogunarsjóðanna, að ráðgjafar þeirra gera ráð fyrir að bankinn geti á næstu misserum greitt út 80 milljarða kr., 80 milljarða kr. í arð til eigendanna, til vogunarsjóðanna.

Auk þess er að koma betur og betur í ljós hversu mikils virði dótturfélög bankans eru, töluvert meira virði en skráð er í bókum bankans og ljóst að hlutdeild ríkisins í þessu öllu verður á endanum miklu minni en til var stofnað og auðveldast að bera þetta mál saman við Íslandsbanka því að þetta átti í raun að skila sambærilegri niðurstöðu. Íslandsbanki var afhentur ríkinu í heilu lagi. Í tilviki Arion banka voru farnar aðrar leiðir, en þar hafa stjórnvöld ítrekað gefið eftir stöðu stjórnvalda, stöðu ríkisins, og kostað þar með skattgreiðendur, almenning í landinu, verulegar upphæðir.

Það þurfti leyfi til að fá að selja hlut í bankanum, stjórnvöld veittu það leyfi, svo höfðu þau forkaupsrétt sem þau nýttu ekki og nú liggur það fyrir eftir síðustu vendingar, eftir að ríkisstjórnin í rauninni spilaði með í fléttu þessara aðila og þeir fengu að nota bankann til að kaupa í bankanum fyrir sjálfa sig, að staða ríkisins og aðkoma að þessu máli er orðin verulega skert og löskuð.

Hvað finnst hæstv. forsætisráðherra um gang mála í þessu máli? Hvað finnst hæstv. forsætisráðherra um að sjá það að 80 milljarðar verði væntanlega greiddir út til vogunarsjóða í stað þess að renna í ríkissjóð?