148. löggjafarþing — 32. fundur,  1. mars 2018.

staða hagkerfisins.

[10:49]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Þetta eru mjög áhugaverðar tölur sem hv. þingmaður færir hér inn í umræðuna um hagspána. Staðan er sú að við erum nú að lifa lengsta samfellda hagvaxtarskeið okkar. Það var ekki við því að búast að hagvöxtur héldi áfram af þeim krafti sem hann hefur gert undanfarin ár. Ég lýsi engum áhyggjum af því þó að hagvöxtur fari niður undir um 3% og jafnvel þótt hann lægi á bilinu 2,5–3% eins og vísað var til, og var það nokkuð viðbúið. Sérstaklega eftir mjög mikla styrkingu krónunnar sem er vegna þessa sama hagvaxtarskeiðs þar sem mjög aukinn fjöldi ferðamanna til landsins hefur haft mikil áhrif.

Það er líka hægt að segja að ekki sé við því að búast að í þróuðum hagkerfum eins og okkar, sérstaklega eftir mjög langt hagvaxtarskeið, haldi hagvöxtur bara áfram inn í eilífðina og langt yfir heimsmeðaltali eins og hv. þingmaður segir. Það er kannski frekar að menn eigi von á meiri hagvaxtartölum frá nýmarkaðsríkjum og löndum sem eru að rétta úr kútnum og eru í mikilli innviðauppbyggingu og sókn til bættra lífskjara. En þegar lönd mælast með lífskjör fremst meðal þjóða eins og á við um Íslendinga er mjög vandasamt að halda vextinum jafn kraftmiklum og átt hefur við undanfarin ár.

Ég er þeirrar skoðunar að við séum að sigla inn í töluvert breytta tíma núna eftir þetta kraftmikla hagvaxtarskeið, að við munum sjá vonandi meira jafnvægi, minni vöxt milli ára, færri óvænta vinninga eins og við höfum séð. Það hefur nánast verið venjan að frá því að fjárlög hafa verið lögð fram þar til næsta hagvaxtarspá birtist höfum við úr 15–20 (Forseti hringir.) viðbótarmilljörðum að spila fyrir komandi fjárlagaár. Ég held að því tímabili sé að ljúka, við séum að fara inn í mun rólegri tíma. Það þarf ekki að boða nein ótíðindi.