148. löggjafarþing — 32. fundur,  1. mars 2018.

staða hagkerfisins.

[10:51]
Horfa

Smári McCarthy (P):

Herra forseti. Ég ætla í fyrsta lagi að segja að það er rangt hjá hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra, þetta er ekki lengsta hagvaxtarskeiðið í sögu Íslands. Þetta er það þriðja lengsta ef allar spár ganga eftir.

Svo er líka tilfellið að ég spurði um aðgerðir en ekki spár. Ég spurði ekki hver skoðun hæstv. fjármálaráðherra væri á því hvernig okkur myndi ganga, heldur spurði ég hvaða aðgerðir af hálfu ríkisstjórnarinnar myndu koma í veg fyrir brotlendingu.

Nú er styrking krónunnar áhugavert umræðuefni og sömuleiðis hvort hagvöxtur fari undir heimsmeðaltalið, sem er yfirleitt ábending um að við séum að fylgja eftir þróun sem er undirliggjandi alda á heimsvísu, jafnvel svokölluð Kondratiev-bylgja. En við hljótum í það minnsta að geta fylgt eftir löndum á borð við Eistland, sem ekki er með vanþróað hagkerfi á nokkurn hátt. Þar er spáð 5% til lengdar.

Hvað ætlar hæstv. fjármálaráðherra að gera til að tryggja að okkar hagkerfi haldi svona vel áfram til lengdar?