148. löggjafarþing — 32. fundur,  1. mars 2018.

staða hagkerfisins.

[10:53]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Það má kannski segja að stutta svarið við spurningunni liggi í því að ríkisstjórnin hyggst leggja sérstaka áherslu á nýsköpun og þróun á komandi árum, að styðja við nýsköpun og þróun þannig að hér verði til aukin verðmæti, meiri framleiðni og vöxtur haldi áfram. Ný störf sem eru verðmætaskapandi.

Ef maður ætti að fara út í lengra svarið myndi ég benda á að það birtist í raun og veru í ríkisfjármálaáætluninni, í fjármálastefnunni. Ríkisstjórnin getur ekki tekið að sér ein og óstudd að viðhalda stöðugleika og vexti í hagkerfinu, heldur er það sameiginlegt verkefni stjórnvalda og þá á ég við ríkisstjórn ásamt með sveitarstjórnunum í samvinnu við vinnumarkaðinn. Menn verða að haldast í hendur við að tryggja stöðugleika og vöxt og síðan kemur auðvitað peningastjórn inn í þá mynd.

Samspil vaxtaákvarðana, stjórn opinberra fjármála og þess sem er að gerast á vinnumarkaði, samspil þessara þátta er lykillinn að því að við getum viðhaldið stöðugleika og vexti á Íslandi.