148. löggjafarþing — 32. fundur,  1. mars 2018.

málefni öryrkja.

[10:54]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegi forseti. Ég ætla að beina spurningu minni til hæstv. forsætisráðherra Katrínar Jakobsdóttur. Ég ætla að tala um málefni öryrkja. Hvað eru öryrkjar og hvaða stöðu hafa þeir á borði þessarar ríkisstjórnar? Erum við molar sem á að dusta af borðinu eða kusk sem á að þurrka í burtu? Gilda önnur lögmál um hjónaband öryrkja? Er ríkið með einhverjar getnaðarvarnarhugsanir um að láta borga of mikið fyrir að vera í hjónabandi þannig að öryrkjar eignist ekki börn og þeim fjölgi ekki?

Erum við neysluvara? Erum við í hillum verslana, uppreiknuð samkvæmt neysluvísitölu? Lífeyrissjóðirnir okkar eru uppreiknaðir samkvæmt neysluvísitölu en ekki launavísitölu eins og hjá öllum öðrum launamönnum. Þar munaði helmingi um síðustu áramót. Hvað erum við? Pakkar í bíl sem gleymast þegar farið er í kaffi?

Við erum búin að samþykkja sáttmála Sameinuðu þjóðanna. Við erum að fara að lögfesta hann. Hvað gerum við þá? Besta dæmið um hvað þessi sáttmáli á að tryggja okkur liggur í Hugarafli og geðfylgniteymi þess og eftirfylgni. Þetta á að eyðileggja. Hvað er verið að eyðileggja þarna? Félagasamtök sem virka 100%, eru frábær, eru með þúsund manns á bak við sig, þúsund komur í hverjum mánuði, 12 þúsund komur á ári. Þetta á að skemma.

Ég spyr. Þetta eru 55 milljónir þarna undir. Smáaurar. Það á að byrja að skemma þetta, byrja að rífa þetta niður núna. Ég er búinn að reyna að fá svör. Þeir sem eru í Hugarafli og aðrir hafa líka reynt að fá svör við þessu og þau eru engin. Það er bara einskær brotavilji um að sjá til þess að þeim sem eru með geðsjúkdóma á Íslandi eigi að henda út á götuna. Því þetta virkar. Ég vona heitt og innilega að forsætisráðherra sjái til þess að þetta haldi áfram að virka og sjái til þess að Hugarafl fái sitt.