148. löggjafarþing — 32. fundur,  1. mars 2018.

málefni öryrkja.

[10:56]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina. Ég vil segja það fyrst, af því að hann spurði hvort öryrkjar væru í mínum huga neysluvara eða eitthvað því um líkt, að auðvitað er það ekki svo. Öryrkjar eru fólk eins og við öll í þessu landi; fólk sem stríðir við veikindi eða fötlun. Ég átti mjög góðan fund ásamt mínum þingflokki með Öryrkjabandalaginu í síðustu viku. Þar kom fram að um 10–15% landsmanna stríða á einhverju tímabili við einhvers konar fötlun. Þetta er hlutskipti sem margir þekkja og margir hafa kynnst. Mér finnst því nauðsynlegt að segja að ég er auðvitað sammála hv. þingmanni um að mikilvægt er að tryggja kjör öryrkja.

Félagsmálaráðherra, sem fer með þennan málaflokk, hefur kynnt Öryrkjabandalaginu og Þroskahjálp áætlun um samtal sem er fram undan um þau málefni sem við fórum líka yfir á fyrrnefndum fundi. Þar verða fulltrúar þessara samtaka og stjórnvalda fyrir utan að þar verða væntanlega líka einhverjir fulltrúar Alþingis. Það er mjög mikilvægt að þær viðræður gangi hratt fyrir sig og skili góðum árangri.

Hv. þingmaður spyr svo sérstaklega um geðheilbrigðismál. Þau voru sett í forgang í síðustu fjárlögum, til að mynda hvað varðar fjölgun sálfræðinga og styrkingu geðheilbrigðisþjónustu víða í kerfinu. Hvað varðar málefni Hugarafls hafa þau verið á borði heilbrigðisráðherra og hún hefur gert grein fyrir þeim málefnum í þinginu, síðast í óundirbúnum fyrirspurnum fyrir ekki svo löngu. Ég vænti þess að hún taki þau mál fyrir og taki þau föstum tökum.

Það skiptir máli að við byggjum þetta samfélag upp, hvort sem við erum að tala um stofnanirnar okkar, skólana, heilbrigðisstofnanir, en líka alla vinnustaði, þannig að við tökum á geðheilbrigðismálum. (Forseti hringir.) Við sjáum sláandi tölur um kvíða og þunglyndi alls staðar í kerfinu. Við verðum að losa um ræturnar og byrja þar frá grunni.