148. löggjafarþing — 32. fundur,  1. mars 2018.

málefni öryrkja.

[10:59]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Ég þakka svörin. En ef hæstv. ráðherra segir að við séum ekki neysluvara, af hverju eru uppreiknuð lífeyrislaun með neysluvísitölu? Af hverju er launavísitalan ekki notuð? Af hverju hefur hún aldrei verið notuð? Það stendur skýrum stöfum: Fyrst launavísitala og svo neysluvísitala, ef hún er hagkvæmari.

Hugarafl er ekki sammála því sem hér hefur komið fram, er ekki sammála heilbrigðisráðherra og ekki sammála félagsmálaráðherra. Þau sjá fram á að leggja eigi þau niður. Það breytir engu þótt setja eigi á fót einhver geðteymi. Setjið geðteymi út í 101, 102, koll af kolli, sem má ekki hlaupa á milli. En eyðileggið ekki það góða sem er þegar til staðar.

Annað í sambandi við félagsmálaráðherra: Króna á móti krónu skerðing kemur starfsgetumati ekkert við. Samt er verið að blanda því saman. Það eru ekki neinar tengingar þarna á milli. Af hverju fá öryrkjar ekki breytingar á krónu á móti krónu skerðingu eins og ellilífeyrisþegar hafa fengið? Hvers vegna í ósköpunum þarf að spyrða það við starfsgetumat? Er það gert til að fresta þessu í eitt, tvö eða þrjú ár?