148. löggjafarþing — 32. fundur,  1. mars 2018.

málefni öryrkja.

[11:00]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég vil taka það fram af því að ég sagði að málefni Hugarafls væru á borði heilbrigðisráðherra að þau eru á borði hæstv. félagsmálaráðherra, bara svo því sé til haga haldið.

Svo ég ljúki því sem ég sagði um geðheilbrigðismálin þá held ég að þar þurfum við sem samfélag virkilega að fara ofan í ræturnar og velta fyrir okkur hvernig á því stendur að allt að þriðjungur háskólanema kveðst vera þunglyndur eða kvíðinn, við erum að fá svipaðar tölur úr framhaldsskólunum, og það leysum við ekki bara með viðbrögðum. Við þurfum líka að horfa til þess hvernig við getum brugðist við rótum vandans, hvernig við getum horft á samfélagið og hvernig það hefur þróast þannig að við getum horft á orsakir en ekki bara afleiðingar.

Hv. þingmaður fór svo að ræða kjaramál öryrkja í seinni fyrirspurn sinni og eins og ég vísaði í áðan er hæstv. félags- og jafnréttismálaráðherra búinn að leggja fram áætlun um hvernig verði farið yfir þau mál. Samfélagsþátttaka er það sem starfsgetumat snýst að einhverju leyti um, þ.e. aukin þátttaka í samfélaginu, ég held að það sé mjög eftirsóknarvert markmið að ná. Þar þurfum við öll að taka höndum saman, líka um að verkefni séu í boði sem henta fyrir þennan hóp. Þar hefur verið rætt um hlutastörf og annað slíkt, horft sé á það hvernig vinnumarkaðurinn geti brugðist við. Það er langtímamarkmið en við þurfum eigi að síður að ræða það líka, herra forseti.