148. löggjafarþing — 32. fundur,  1. mars 2018.

lög um opinberar eftirlitsreglur.

[11:04]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni áhugaverða fyrirspurn. Það er rétt að til eru lög um opinberar eftirlitsreglur og um þær hefur verið flutt skýrsla hér á Alþingi en þó ekki með reglubundnum hætti, eins og vera skyldi. Ég tek bara ábendingu hv. þingmanns til mín og mun fara yfir það í ráðuneytinu hvenær slík skýrsla var síðast flutt. Ég tel að það séu allnokkur ár síðan ef ég þekki þetta rétt, jafnvel allt að tíu ár, ég þori ekki alveg að fara með það. Slík skýrslugjöf ætti auðvitað, samkvæmt lögum, að vera reglubundið til umfjöllunar á Alþingi.

Hvað varðar mat á lagasetningu almennt þá er þetta auðvitað bara einn angi af því sem hv. þingmaður nefnir hér, þ.e. opinberu eftirlitsreglurnar sem snúast um að fara yfir starfsemi eftirlitsstofnana, veita umsögn um lagafrumvörp hvað varðar áhrif þeirra á atvinnulífið og hvort um íþyngjandi eftirlit sé að ræða eða nauðsynlegt. Ég tel að markmið eftirlits eigi alltaf að vera almenningi til hagsbóta. Regluverk þarf ekki að vera flókið til að vera skilvirkt og skila árangri fyrir almenning. En hvað varðar stóru spurninguna um mat á lagasetningu þá erum við auðvitað komin í talsvert heimspekilegri umræðu. Við vitum að hér á Alþingi eru sett ýmis lög sem við teljum jafnvel að hafi tiltekin áhrif á tiltekna hópa en reynast svo ekki hafa þau áhrif sem ætlast var til. Ég held því að hluti af okkar verkefni sé að innleiða miklu markvissara mat á þeim lögum sem við höfum sett.

Ég nefni sem dæmi umræðuna sem verið hefur um greiðsluþátttökukerfið sem við tókum sameiginlega þátt í að setja hér á Alþingi og pólitísk samstaða náðist um, sem ég tel að hafi verið mjög mikilvægt. Það er nú gagnrýnt sökum þess að áhrif þess séu ekki eins og til var ætlast og jafnvel að kostnaður tiltekinni hópa hafi aukist. Þá er það hlutverk okkar að fara ofan í það og meta hvort markmið lagasetningarinnar hafi skilað sér á þann hátt sem við ætluðumst til.