148. löggjafarþing — 32. fundur,  1. mars 2018.

lög um opinberar eftirlitsreglur.

[11:08]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Það hefur margt mjög áhugavert gerst í Eistlandi, ekki bara hvað þessi mál varðar heldur varðandi rafræna stjórnsýslu, rafrænt lýðræði og fleira sem ég tel að sé allrar athygli vert. Við eigum að kynna okkur það vel til að kanna hvort við getum lært af því.

Í þeim málum sem varða eftirlit þá held ég að aukið gagnsæi sé í raun lykilatriði fyrir almenning. Þá er ég að horfa til þessara einföldu hluta sem hafa sem betur fer verið að taka framförum á undanförnum árum, hvað varðar innihaldsmerkingar matvæla og annað slíkt sem kannski þótti einhvern tímann íþyngjandi en er samt algjört lykilatriði fyrir neytendur til þess hreinlega að átta sig á áhrifum af viðkomandi neysluvöru. Ég held að í þessum málum þurfum við einfaldlega alltaf að hafa þau sjónarmið í huga að ástæður eftirlitsins þurfa að vera ljósar, reglurnar þurfa að vera skýrar og gagnsæjar; þær þurfa ekki að vera flóknar til að skila þeim árangri sem við viljum sjá, sem varða fyrst og fremst almannahagsmuni. Ég held að við hv. þingmaður séum sammála um það.

Ég mun taka til skoðunar ábendingar hans um lög um opinberu eftirlitsreglurnar og hvernig framfylgd þeirra hefur verið háttað.