148. löggjafarþing — 32. fundur,  1. mars 2018.

framlagning stjórnarmála.

[11:09]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Ég var að skoða starfsáætlun þingsins og mér sýnist, ef ég hef ekki talið vitlaust, að einungis séu 19 þingfundardagar eftir fram að hléi sem við gerum fyrir sveitarstjórnarkosningar. Eftir það hlé, eftir sveitarstjórnarkosningar, er aðeins gert ráð fyrir sjö þingfundum.

Þau mál sem ríkisstjórnin sagðist ætla að leggja hér fram koma ekki, bara örfá mál. Í dag eru til dæmis á dagskrá tvö EES-mál og af þeim málum sem var útbýtt er ekki eitt einasta stjórnarmál. Auðvitað hljótum við að spyrja: Hvað er það sem veldur? Kemur ríkisstjórnin sér ekki saman um hvaða mál eigi að fara í gegnum þingið? Eru málin stopp í þingflokkunum? Eða er bara um almennt dugleysi og metnaðarleysi að ræða hjá þessari ríkisstjórn?