148. löggjafarþing — 32. fundur,  1. mars 2018.

framlagning stjórnarmála.

[11:13]
Horfa

Þorgerður K. Gunnarsdóttir (V):

Herra forseti. Ég sat fund atvinnuveganefndar í morgun og þar var vissulega þetta merka mál um Hitaveitu Suðurnesja, niðurfellingu þeirra laga, afgreitt og síðan vorum við með til umræðu álamálið, risastóra álamálið, sem gengur út á það, og er mjög eðlilegt, að veita sjávarútvegsráðherra valdheimildir til að fara að ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar. Mál sem við þekkjum frá því í fyrra og sjálfsagt og eðlilegt að afgreiða. Hæstv. forsætisráðherra var hér í gær með opinberar eftirlitsreglur. (Forsrh.: Nei.) Nei. Eitthvert annað mál sem er ekki mikill skandall alla vega. Það er frekar fátt um fína drætti, verður að segjast eins og er.

Þess vegna hlýtur það að kalla á að hæstv. forseti þingsins fari að beita sér núna með okkur þingmönnum sem erum búnir að halda dampi hér í þinginu, halda uppi dagskránni frá jólum, og reyni að koma þeim skilaboðum áleiðis að mál þingmanna, hvort sem þeir eru í stjórn eða stjórnarandstöðu, fái afgreiðslu í nefndum og umræðu hér. Ég vil taka eindregið undir orð hv. þm. Smára McCarthys; athafnaleysi, vanræksla, hirðuleysi eða kjarkleysi ríkisstjórnarinnar við að setja fram mál mun ekki skapa neyðarástand í þinginu. Við getum alveg haldið starfsáætlun. (Forseti hringir.) Við getum alveg afgreitt mál þingmanna. (Forseti hringir.) Ekki nema ríkisstjórnin ætli sér að nýta hátíðarfundinn sem verður 18. júlí í sumar.

(Forseti (SJS): Forseti gleymdi sér og hv. þingmaður fékk aukalega hálfa mínútu.)