148. löggjafarþing — 32. fundur,  1. mars 2018.

framlagning stjórnarmála.

[11:18]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V):

Herra forseti. Hér rétt áðan áttum við ágætar samræður, ég og hæstv. forsætisráðherra, um vandaða lagasetningu og mat á áhrifum lagasetningar. Mér fannst talsverður samhljómur vera í orðaskiptum okkar. Ég velti því fyrir mér hvernig skoðun hæstv. forsætisráðherra samrýmist hug hennar um vönduð vinnubrögð, að við gætum farið betur yfir og þyrftum að leggja meira mat á hvaða áhrif löggjöf hefur, ef menn ætla sér að halda sig við þingmálaskrá ríkisstjórnarinnar og afgreiða þann stafla sem væntanlegur er á þeim tíma sem okkur er ætlaður. Ég óttast mjög að það verði ekki vönduð lagasetning, ekki útrædd og ekki eins góð og hún þarf að vera. Ég hef miklar áhyggjur af þessu. (Forseti hringir.) Ég trúi ekki öðru en að hæstv. forsætisráðherra beiti sér fyrir því að taka þessi mál fastari tökum.