148. löggjafarþing — 32. fundur,  1. mars 2018.

framlagning stjórnarmála.

[11:20]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Herra forseti. Það að það eru fá mál frá ríkisstjórninni hefur vissa kosti í för með sér. Eitt er það að í þinginu getum við þingmenn verið að vinna að okkar þingmálum, og það er það sem m.a. hefur verið í gangi, og hitt er eftirlitshlutverk þingsins. Eitt veigamesta hlutverk þingsins er að tryggja það að ríkið og stofnanir stjórnsýslunnar séu að framfylgja þeim lögum og reglum sem þingið hefur þegar sett. Við höfum haft mikið svigrúm til að gera það núna, það er mjög gott. Ef ráðherrar eru á þessum tíma að sinna sínu hlutverki vel, eins og að heilbrigðisráðherra setji í forgang að vinna heilbrigðisstefnu til framtíðar þá er það gott líka.

Það slæma er að það er kannski verið að vanrækja einhverja hluti sem landsmenn vilja setja í forgang eins og hefur verið nefnt hérna, mörg atriði, fyrir marga hópa samfélagsins. Það verður þessi ríkisstjórn að eiga við kjósendur og landsmenn. Þegar kemur að þinginu, þegar mál koma seint fram og unnið er í flýti, þá er ekki hægt að sakast við þingið þegar dregur nær þingfrestun í vor og við höfum ekki tíma. Þá er við ríkisstjórnina að sakast. Þingið (Forseti hringir.) þarf að taka sinn tíma í að vinna vel þau mál sem koma frá ríkisstjórninni.