148. löggjafarþing — 32. fundur,  1. mars 2018.

framlagning stjórnarmála.

[11:21]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Mér finnst að ef ríkisstjórnin ætlar ekki að leggja fram öll þau mál sem koma fram í þingmálaskrá þá eigi hún að uppfæra þá þingmálaskrá eins og hún kemur fram á vef Stjórnarráðsins. Í hv. efnahags- og viðskiptanefnd höfum við fengið uppfært skjal frá hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra þar sem koma fram 24 mál, þar af ellefu sem þegar hafa verið lögð fram. Frá iðnaðar- og nýsköpunarráðherra eru komin fram fjögur mál eftir því sem ég best fæ séð af fjórtán. Þannig að málaþurrðin er mjög mikil.

Mér finnst mjög mikilvægt að það sé alveg skýrt ef ríkisstjórnin ætlar ekki að leggja fram tiltekin mál vegna þess að annars gerist það við lok þings sem hefur allt of oft gerst, að það verður asi við störfin og mikil krafa um að hlutirnir séu gerðir hraðar en mögulegt er til þess að standa vel að verki. Í öðru lagi er það svo að þegar við förum síðan að ræða þessi mál efnislega þá verður kvartað undan málþófi, að við eigum að þegja, vegna þess að það þurfi að klára þessi mál. (Forseti hringir.) Ég hef áhyggjur af þessu. Í það minnsta á ríkisstjórnin að láta okkur vita um þau mál sem hún hyggst ekki leggja fram og uppfæra (Forseti hringir.) þingmálaskrá sína í samræmi við það. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)