148. löggjafarþing — 32. fundur,  1. mars 2018.

framlagning stjórnarmála.

[11:22]
Horfa

Þorgerður K. Gunnarsdóttir (V):

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að mótmæla hv. þm. Loga Má Einarssyni og Ágústi Ólafi Ágústssyni sem ræða hér um íhaldsstjórn. Ég hef litið á þessa ríkisstjórn sem ríkisstjórn þriggja Framsóknarflokka, [Hlátur í þingsal.] en auðvitað er umdeilanlegt hvort er verra. Ég geri mér fyllilega grein fyrir því.

En að öllu gamni slepptu er þetta auðvitað prófsteinn á ríkisstjórnina, á framkvæmdarvaldið en ekki síst á hæstv. forseta um að breyta hér verkferlum, að orðin sem eru svo falleg í stjórnarsáttmálanum um breytt vinnubrögð á þingi verði ekki bara orðin tóm. Núna er tækifærið, nú þegar við erum ekki bara að kalla eftir málum frá ríkisstjórninni heldur þegar þingið er í því ferli sem það er núna í, með fullt af málum frá þingmönnum sem hægt er að afgreiða. Ég hvet eindregið til þess.

Mér finnst á hinn bóginn miður að upplifa það að hér vilja menn ekki ræða sum mál, eins og hæstv. fjármálaráðherra áðan, hann átti í erfiðleikum með að ræða t.d. vopnaflutninga. Það mátti ekki ræða um það. (Forseti hringir.) Núna um daginn mátti ekki ræða eða afgreiða beiðni um rannsóknarskýrslu, sem er einmitt á dagskrá hér á eftir, í tengslum við rannsóknarskýrslu Alþingis. Það er eitt og annað sem má ekki ræða hérna. (Forseti hringir.)Það eru vond skilaboð að mínu mati frá hæstv. ríkisstjórn.