148. löggjafarþing — 32. fundur,  1. mars 2018.

framlagning stjórnarmála.

[11:24]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Ég sagði áðan að það væru 19 þingfundadagar eftir fram að sveitarstjórnarkosningum. Það er ekki rétt, þeir eru 23. En þessi fundur í dag er sá 19. frá áramótum. Það sér hver maður að á þeim tíma sem eftir er náum við ekki að klára þau mál sem hæstv. ríkisstjórn hefur sagst ætla að leggja fram. Þar á meðal eru stór mál sem við munum taka langan tíma í að ræða, eins og fjármálaáætlun og von er á fjármálastefnunni á næstu dögum frá fjárlaganefnd.

Við erum í vondum málum. Þegar við ræddum þetta í síðustu viku kom m.a. hér upp í pontu þingflokksformaður Vinstri grænna og tók undir áhyggjur okkar í stjórnarandstöðunni og sagðist vera búin að ræða þessi mál við hæstv. forsætisráðherra. Það var fyrir rúmri viku síðan (Forseti hringir.) og enn ekkert hefur gerst. Þannig að ég er hrædd um að hv. þm. Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, þingflokksformaður Vinstri grænna, þurfi að leggjast með okkur á árarnar.