148. löggjafarþing — 32. fundur,  1. mars 2018.

framlagning stjórnarmála.

[11:25]
Horfa

Albertína Friðbjörg Elíasdóttir (Sf):

Herra forseti. Ég verð að koma hér upp og lýsa yfir vonbrigðum. Nú er ég ný á þingi, þetta er fyrsta kjörtímabilið mitt, og ég verð að viðurkenna að þetta haust og sérstaklega núna eftir áramót hefur valdið mér mjög miklum vonbrigðum af því að þessi vinnubrögð eru til háborinnar skammar. Við höfum hér engin mál að ræða um, það er nánast tilgangslaust að funda í atvinnuveganefnd af því að þar eru, eins og hefur verið komið hér inn á hjá öðrum hv. þingmönnum, mál sem eru — þau eru náttúrlega mikilvæg á sinn hátt og ég ætla ekki að gera lítið úr því en þau eru samt vandræðaleg. Það tekur því varla að halda fundi. (LRM: Flutningskerfi raforku?) Það er búið að ræða það, já, en eins og í dag vorum við að ræða álafrumvarpið sem er sannarlega mjög mikilvægt mál og brottfall laga sem fjallar um fyrirtæki sem eru ekki lengur til. Þetta var eiginlega bara vandræðalegt.

Það er sama með vinnubrögðin hérna yfir höfuð, mér finnst þetta ekki gott og ég varð fyrir vonbrigðum með þau. Þegar (Forseti hringir.) maður hefur gert athugasemd við þau hefur maður fengið þau svör að þetta hafi alltaf verið svona.

Herra forseti. Það þýðir ekki að við þurfum ekki að breyta því.