148. löggjafarþing — 32. fundur,  1. mars 2018.

framlagning stjórnarmála.

[11:27]
Horfa

Halldóra Mogensen (P):

Forseti. Ég skil vel að taki tíma að vinna góð mál. Þetta er ný ríkisstjórn og kannski skiljanlegt að málin komi ekki öll strax til okkar. Það liggur samt fyrir þingmálaskrá, sem er áætlun ráðherra um þau mál sem leggja á fram. Ekki er staðið við þá áætlun. Þá hefði verið eðlilegast fyrir ráðherra að láta okkur vita hvaða mál muni tefjast, hvenær þau verði þá lögð fram eða hvort þau komi fram yfir höfuð.

Það vantar og ég hvet ráðherra til þess að upplýsa okkur þingmenn um það svo við getum unnið betur. Það er ólíðandi ef demba á þessum málum á okkur á síðustu stundu, korteri fyrir þinglok þar sem við höfum engan tíma til að kynna okkur þau almennilega eða eiga alvöruumræðu um þau.

Þannig vinnubrögð vona ég svo innilega að ný ríkisstjórn ætli ekki að ástunda. Mögulega þarf að fresta málum til þess að vinna þau betur. En eigum við þá ekki bara að nýta tímann til þess að afgreiða þau mörgu og góðu þingmannamál sem eru á dagskrá? Koma þeim í umræðu og beita þeim faglegu nýju vinnubrögðum sem ný ríkisstjórn er búin að boða?