148. löggjafarþing — 32. fundur,  1. mars 2018.

framlagning stjórnarmála.

[11:28]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég nefndi nýsköpunina áðan. Ástæðan fyrir því að ég nefndi hana er sú að á síðasta fundi fjárlaganefndar komu Samtök iðnaðarins og sögðu okkur að fjórða stoðin, sem á að vera hagkerfisstoðin sem framtíðarhagvöxtur okkar byggir á, nýsköpunin, væri bara frasi. Það sést á fjárlögunum núna að við sinnum ekki starfi okkar þar. Þess vegna bendi ég forseta á að þrýsta á ríkisstjórnina að gera eitthvað í þeim málum.

Auk þess vildi ég setja aðeins út á þá freistni virðulegs forseta til að segja brandara á kostnað þingmanna í pontu. Ég geri almenna athugasemd við að verið sé að henda út bröndurum um ræðutíma eða eitthvað svoleiðis á kostnað þingmanna eftir hentisemi.