148. löggjafarþing — 32. fundur,  1. mars 2018.

framlagning stjórnarmála.

[11:32]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V):

Virðulegur forseti. Það er vissulega hægt að skemmta sér mjög vel og lengi yfir verkleysi ríkisstjórnarinnar. En ég get alveg tekið undir með hv. þm. Óla Birni Kárasyni sem sagði að það væri ekkert endilega gott að ríkisstjórnir væru verkmiklar. Ég hef í sjálfu sér ekki miklar áhyggjur af verkleysi þessarar ríkisstjórnar, ég held að ég sé ósammála henni í flestum þeim verkum sem hún ætlar að taka sér fyrir hendur þannig að að því leytinu til get ég tekið undir með þingmanninum um að þetta sé ágætt.

Það er hins vegar alvörumál að ætla að hrúga inn á þingið á síðustu dögum þess málum sem á að ljúka og afgreiða. Það þýðir að þingið mun ekki hafa tíma til að sinna þeim málum sem skyldi. Ég held að það sé líka deginum ljósara að við erum hér að stefna inn í nefndaviku í annarri viku héðan í frá og við höfum engin mál til að vinna í þeirri viku. Ég held að það væri ágætt að við færum að huga að því að endurskoða starfsáætlun Alþingis fram að vori í ljósi þess að ríkisstjórnin er langt á eftir áætlun.